Um 10 manns tókust á á veitingastað

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nóg var að gera í miðbæ Reykjavíkur“ í nótt, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Nokkuð var um slagsmál, rétt eins og á aðfararnótt laugardags.

Erillinn byrjaði strax um níuleytið þegar lögreglu barst tilkynning um hópslagsmál inni á veitingastað í Laugardal. Átta til tíu manns höfðu tekist á þar en enginn slasaðist og var málið leyst á vettvangi. 

Þá barst lögreglu tilkynning um líkamsárás við skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur rétt fyrir klukkan eitt í nótt. Fórnarlambið hafði verið skallað og var það með brotnar tennur eftir „atlöguna“. Gerandinn var flúinn af vettvangi þegar þolandinn var fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabifreið. 

Slagsmál reyndust vera gamnislagur

Um 20 mínútum síðar barst lögreglu tilkynning um hópslagsmál í miðbænum en fólkið var farið af vettvangi þegar lögreglan mætti á svæðið. 

Einungis þremur mínútum síðar, klukkan 1:23, barst lögreglu tilkynning um líkamsárás við skemmtistað í miðbænum. Þolandinn hafði hlotið skurð á enni.

Klukkan tíu mínútur í tvö var svo maður handtekinn fyrir að veitast að fólki fyrir framan lögreglu í miðbænum. Sá hinn sami var handtekinn. 

Fleiri líkamsárásir voru framdar í gær, samkvæmt dagbók lögreglu en ein líkamsárás, sem átti að hafa verið framin í heimahúsi, reyndist vera gamnislagur á milli vina. „Allir hlæjandi og brosandi þegar að lögregla kom á vettvang,“ segir í dagbók lögreglu. 

mbl.is