Krónprins Danmerkur heimsækir Ísland

Friðrik krónprins ásamt Mary, eiginkonu sinni.
Friðrik krónprins ásamt Mary, eiginkonu sinni. AFP

Friðrik krónprins Danmerkur verður á Íslandi dagana 12.–13. október ásamt utanríkisráðherra Danmerkur Jeppe Kofod og sendinefnd. Markmið ferðarinnar er að styrkja samstarf og viðskiptatengsl Íslands og Danmerkur á sviði sjálfbærra orkulausna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.

Þar segir, að heimsókn krónprinsins hefjist með kvöldverði honum til heiðurs á Bessastöðum kl. 18:30 annað kvöld. Morguninn eftir, miðvikudaginn 13. október, mun forseti flytja ávarp við setningu fundar dansk-íslensku sendinefndarinnar sem fram fer í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýri. Síðar þann sama dag skoðar forseti danska varðskipið HDMS Triton sem nú liggur við höfn í Reykjavík. Skipið sinnir eftirliti á Norðurslóðum og fá forseti og krónprinsinn leiðsögn um skipið og störf áhafnar.

mbl.is