Hittust í gær og síðan aftur á morgun

„Kjörbréfanefnd er nú að afla gagna og í framhaldi af …
„Kjörbréfanefnd er nú að afla gagna og í framhaldi af því mun hún taka afstöðu til bæði kjörbréfa og kæruefna,“ segir Birgir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar kjör­bréfa­nefnd­ar Alþing­is og þing­flokks­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, segir nefndina hafa fundað í gær og fundi aftur á morgun.

„Við erum enn þá í þessum undirbúningsfasa, taka við kærum, átta okkur á hvaða gögn við þurfum og þess háttar. Það er staðan í dag, við höldum áfram á morgun,“ segir Birgir.

Í dag var greint frá því að rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi vestra á kæru Karls Gauta Hjaltasonar væri lokið. Karl Gauti kærði kosninguna vegna meðferðar yfirkjörstjórnar á kjörgögnum. Alls hafa nú átta lagt inn kæru.

Munu óska eftir gögnum frá lögreglu

„Við munum að sjálfsögðu reyna að afla þeirra gagna frá lögreglu sem hún hefur undir höndum og telur sig geta afhent okkur,“ segir Birgir, spurður út í hvað það þýði fyrir nefndina.

„Kjörbréfanefnd er nú að afla gagna og í framhaldi af því mun hún taka afstöðu til bæði kjörbréfa og kæruefna. Við tökum ekki afstöðu til einstakra álitamála þar til við erum búin að fara yfir málið.“

Undirbúningsnefndin þarf að ljúka sínum störfum áður en að fyrsti þingfundur er haldin og hin eiginlega kjörbréfanefnd er kjörin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert