Tveir kjósendur lagt inn kæru

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls hafa nú átta kært niðurstöður nýafstaðinna þingkosninga til Alþingis og eru þar með allir þeir jöfnunarþingmenn, sem töldu sig inni á þingi fyrir endurtalningu, búnir að leggja fram kæru. 

Þar að auki hefur oddviti Pírata í umræddu kjördæmi, Magnús Davíð Norðdahl, lagt fram kæru ásamt tveimur kjósendum sem ekki áttu sæti á lista.

Kemur í hlut kjörbréfanefndar

Þetta segir Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar Alþingis og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, við mbl.is. 

Hann segir að undirbúningsnefndin vinni nú að því að koma sér upp fyrir fram ákveðnu verklagi, svo taka megi kærurnar til meðferðar. Þegar búið verður að safna viðeigandi upplýsingum um kærurnar, efni þeirra og ástæður, kemur það í hlut eiginlegrar kjörbréfanefndar Alþingis að skera úr um lögmæti þingkosninganna.

Fresturinn gæti verið styttur

Frestur til þess að senda inn kosningakæru rennur út fjórum vikum eftir að landskjörstjórn gefur út kjörbréf til ný- og endurkjörinna þingmanna. Það gerði hún 1. október síðastliðinn, sem þýðir að kærufrestur rennur út 29. október. 

Þó getur komið til þess, eins og Birgir útskýrir, að fresturinn verði styttur ef þing kemur saman fyrir 29. október. Komi til þess, mun fresturinn renna út um leið og þing kemur saman. 

mbl.is