Ríkislögreglustjóri varð undir í héraði

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir dómar féllu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem fallist var á aðalkröfur fjögurra yfirlögregluþjóna hjá embætti ríkislögreglustjóra um að greiða þeim laun í samræmi við samkomulag sem fyrrverandi ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, gerði við viðkomandi starfsmenn í lok ágúst 2019 um endurskoðun á launakjörum.

Sig­ríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri tók við embætt­inu af Har­aldi Johann­essen í mars 2020 en eft­ir að hún tók við boðaði hún að launa­hækk­an­irn­ar yrðu aft­ur­kallaðar og að embættið teldi sig ekki bundið því samkomulagi sem gert hefði verið við nokkra yfirlögregluþjóna í lok ágúst 2019.

Fallist á allar kröfur

Óskar Bjartmarz, fyrrverandi yfirlögregluþjónn og einn þeirra sem stefndu embætti ríkislögreglustjóra og íslenska ríkinu, segist, í samtali við mbl.is, vera ánægður með niðurstöðuna enda fallist á þær dómkröfur sem settar voru fram í nafni fjórmenningana. Hann bendir þó á að dómurinn hafi nú einungis fallið á fyrra dómstigi og því hafi hann ekki meira um málið að segja á þessu stigi. 

Óskar Bjartmarz fyrrverandi yfirlögregluþjónn segist ánægður með niðurstöðu Héraðsdóms.
Óskar Bjartmarz fyrrverandi yfirlögregluþjónn segist ánægður með niðurstöðu Héraðsdóms. mbl.is/Árni Sæberg

Segir í dóminum í máli Óskars að krafa stefnanda taki réttilega mið af því að stefndu sé skylt að standa við fyrrgreint fyrirkomulag í samræmi við efni þess.

Hafna beri þeim málatilbúnaði stefndu að krafan byggi á „einhliða“ sjónarmiðum stefnanda um það í hvaða launaflokk eigi að skipa honum þrátt fyrir nýjan stofnanasamning, enda ljóst að krafan byggir að þessu leyti á bindandi samkomulagi sem stefndi ríkislögreglustjóri undirgekkst. 

Fram kemur að draga verði þá ályktun að eftir að umrætt samkomulag öðlaðist gildi við undirritun þess 26. ágúst 2019 hafi það skuldbundið stefnenda og stefnda ríkislögreglustjóra, sbr. meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. 

Tók einhliða ákvörðun í andstöðu við ákvæði samningsins

Segir þá að stefndi ríkislögreglustjóri hafi einhliða ákveðið að taka ákvörðun í ágúst 2020 um að breyta launafyrirkomulagi stefnanda í andstöðu við ákvæði samningsins.

Byggja stefndu málsvörn sína á því að samkomulagið hafi verið óskuldbindandi þar sem það hafi verið gert í andstöðu við lög, kjarasamning og stofnanasamning.

Því er hafnað í dómnum og segir að stefnandi hafi gert samkomulagið við forstöðumann stefnda ríkislögreglustjóra sem samkvæmt lögum geti komið fram út á við fyrir hönd stofnunarinnar og meðal annars samið um ráðningarkjör. Tekið er fram að forstöðumönnum ríkisstofnanna sé almennt séð veitt ákveðið svigrúm til að ákveða hvernig þeir ráðstafi þeim fjármunum sem veitt er til stofnana þeirra.

Þá var ekki heldur fallist á að með stefndu að stofnanasamning beri að skilja á þann veg að forstöðumaður ríkisstofnunar geti ekki samið um hagfelldari kjör en þar greinir. 

mbl.is