Fasteignamat lúxusíbúða langt undir markaðsvirði

Nýjar íbúðir á Austurhöfn.
Nýjar íbúðir á Austurhöfn. mbl.is/Arnþór Birkisson

Dæmi eru um að uppsett verð á lúxusíbúðum í Austurhöfn í Reykjavík sé margfalt hærra en fasteignamatið.  

Þannig kostar 175 fermetra íbúð við Bryggjugötu 6 alls 223 milljónir króna á sama tíma og  fasteignamatið er aðeins 39 milljónir króna og er verð íbúðarinnar því um sexfalt hærra en fasteignamatið.

Önnur íbúð við Bryggjugötu 2, sem er 195 fermetrar að stærð, kostar 277 milljónir króna á sama tíma og fasteignamatið er rúmar 95 milljónir króna. Verð þeirrar íbúðar er því um þrefalt hærra en fasteignamatið. 

Mbl.is hefur heimildir fyrir því að íbúð við sömu götu hafi selst á 229 milljónir króna í sumar og nam gildandi fasteignamat aðeins 95 milljónum króna.

Blaðamaður hafði samband við Þjóðskrá Íslands og spurði hvernig stendur á þessum mikla mun á ásettu verði fasteigna og fasteignamati þeirra, hvernig fasteignamatið á svona dýrum eignum sé ákveðið og hvort það eigi ekki að endurspegla gangvirði fasteigna. Einnig var spurt hvort eigendur dýrra eigna sem þessara séu ekki að fá mikinn afslátt af fasteignagjöldum með þessu en megintilgangur fasteignamats er að skapa grundvöll fyrir álagningu opinberra gjalda, að því er segir á vef Þjóðskrár. 

Þjóðskrá Íslands.
Þjóðskrá Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Eðlilegt að fasteignamat sé á eftir

Fram kemur í skriflegu svari Þjóðskrár við fyrirspurninni að fasteignamat fyrir árið 2021 miði samkvæmt lögum við gangvirði fasteigna í febrúar 2020. Eðlilegt sé að fasteignamat sé aðeins á eftir þegar fasteignaverð hækki hratt.

Þess megi einnig geta að fasteignamat íbúðareigna byggi á þinglýstum kaupsamningum og ásett verð í fasteignaauglýsingum gefi ekki alltaf rétta vísbendingu af endanlegu markaðsvirði.

Aukið tillit við endurmat á næsta ári

„Þegar horft er til nýrra fasteigna eins og íbúða við Bryggjugötu, þá er um að ræða eignir í nýju hverfi þar sem elsti kaupsamningur er frá febrúar 2021. Við endurmat á næsta ári mun fasteignamat því taka aukið tillit til þessara nýju upplýsinga,“ segir einnig í svarinu.

Fram kemur að fasteignamat byggi á kaupsamningum á matssvæðum sem séu skilgreind sem svæði þar sem kaupverð er sambærilegt fyrir sambærilegar eignir.

„Ef nýtt hverfi rís sem er mjög frábrugðið öðrum nálægum hverfum hefur Þjóðskrá í gegnum tíðina skilgreint nýtt matssvæði fyrir hverfið til að fasteignamat endurspegli gangvirði viðkomandi fasteigna eins og gert er ráð fyrir í lögum. Markaðurinn ræður á endanum verðlagningu umræddra eigna og byggir fasteignamatið svo á bestu fáanlegu upplýsingum sem liggja fyrir við vinnslu þess,“ segir í svarinu.

mbl.is