Barn á bændafundi stal senunni

Þorsteinn Logi Einarsson og dóttirin Kristín Marí á fundinum á …
Þorsteinn Logi Einarsson og dóttirin Kristín Marí á fundinum á Selfossi í morgun. Ljósmynd/Ragnhildur Sævarsdóttir

„Barnið fékk alla athygli fundargesta,“ segir Þorsteinn Logi Einarsson bóndi í Flóa. Hann hélt á þriggja mánaða gamalli dóttur sinni þegar hann sté í pontu á bændafundi á Selfossi í morgun.

Forysta Bændasamtaka Íslands sat þar fyrir svörum, en óhætt er að segja að barnið unga, Kristín Marí, og faðirinn hafi stolið senunni.

Jarðræktarstyrkir og hugsanleg hækkun slíkra greiðsla til bænda, var spurningin sem Þorsteinn bar fram. Svarað var að nýs landbúnaðarráðherra væri að taka ákvörðun í málinu. Kvótamál í mjólkurframleiðslu brunnu einnig á Flóabóndanum.

„Dóttirin dafnar vel og er enn á bjósti móður,“ segir Þorsteinn Logi um dóttur þeirra Catharinu Marie Beru Krentel. Stúlkan unga fæddist 31. júlí sl. og er því tæpra þriggja mánaða.

Fjölskyldan býr á bænum Egilsstöðum á Þjórsárbökkum í Flóa.

mbl.is