Handtekinn vopnaður boga og örvum

Maðurinn var handtekinn á Árvegi.
Maðurinn var handtekinn á Árvegi. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan á Suðurlandi handtók í nótt mann vopnaðan boga og örvum á Selfossi. Lögreglu barst tilkynning um manninn klukkan 04:18 en þá var hann á gangi við Tryggvatorg. 

„Lögreglumenn fóru á vettvang og fundu manninn fljótlega. Fylgst var með ferðum hans nokkra stund án hans vitneskju en hann síðan handtekinn á Árvegi til móts við Hörðuvelli án mótþróa. Maðurinn lagði niður vopn sín strax og skorað var á hann að gera slíkt,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni. 

Maðurinn var síðar færður í fangelsi á Selfossi og bíður þess enn að vera yfirheyrður en samkvæmt tilkynningu lögreglu mun sú yfirheyrsla fara fram „strax og ástand mannsins leyfir.“

Sérsveit ríkislögreglustjóra var sett í viðbragsstöðu og nokkur viðbúnaður viðhafður vegna atviksins. 

Lögregla mun ekki veita frekari upplýsingar að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert