Neytendastofa bannar auglýsingu Heklu

Bílaumboðið Hekla.
Bílaumboðið Hekla.

Neytendastofa hefur bannað bílaumboðinu Heklu að auglýsa bifreiðar frá þýska framleiðandanum Audi með skilaboðunum „innifalinn ávinningur“.

Þau skilaboð segir Neytendastofa að séu villandi og í áliti stofnunarinnar um málið segir að Hekla megi gera ráð fyrir sektum ef ekki verður fallið frá þessum viðskiptaháttum.

Forsvarsmenn Heklu segja að verið sé að vísa til þess ávinnings sem viðskiptavinir bílaumboðsins hljóta af samstarfi Heklu og Audi. Þannig ætli bílaframleiðandinn að bjóða Heklu lægra verð á innfluttum rafbílum, vegna þess hve vel rafbílavæðing á Íslandi gangi.

Sömuleiðis segir í svari Heklu til Neytendastofu að notkun orðanna „innifalinn ávinningur“ hafi verið hætt eftir að Neytendastofa viðraði athugasemdir sínar.

Neytendastofa segir hins vegar að samkvæmt orðabókarskilgreiningu orðsins ávinningur sé átt við feng eða hagnað. Hekla gæti ekki boðið e.k. ávinning þegar ekkert sem umboðið gerði leiddi af sér lægra verð.

Því mat Neytendastofa það svo að innifalinn ávinningur að tiltekinni fjárhæð gæti lýst því að viðbót fáist sem nemi verðmæti fjárhæðinnar.

mbl.is