Fyrsti uppgjörstími Parísarsamkomulagsins

Frá mótmælum í Glasgow fyrr í vikunni, þar sem ungmenni …
Frá mótmælum í Glasgow fyrr í vikunni, þar sem ungmenni komu saman og kröfðust enn frekari aðgerða. AFP

Loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem haldinn verður í Glasgow hefst á sunnudaginn og stendur yfir dagana 31. október til 12. nóvember.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, segist ekki búast við því að fundurinn muni bera neinar stórfregnir í skauti sér heldur sé hann í raun eiginlegur uppgjörstími Parísarsamkomulagsins.

Hann segir að fyrir fundinn höfðu ríkin verið beðin um að gera tvennt, annarsvegar að endurskoða og uppfæra sín framlög í Parísarsamkomulaginu, gera þau metnaðarfyllri.

Í öðru lagi höfðu ríkin átt að að skila sinni framtíðarsýn um hvernig tryggja skuli kolefnislaus ríki, svokölluð Net Zero Strategy.

Lýsti yfir vonbrigðum sínum

Halldór hafði lýst yfir vonbrigðum sínum í síðustu viku þegar allt hafði bent til þess að Ísland myndi ekki skila framtíðarsýn. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Umhverfis- og auðlindaráðherra, svaraði því og sagði að framtíðarsýn væri að fæðast.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs.
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs. Ljósmynd/Aðsend

Fyrstu tvo dagana munu leiðtogar ríkjanna ávarpa fundinn, eftir það fer samningavinna á fullt sem lýkur með lokahnykk þar sem ráðherrar koma og leysa úr erfiðustu málunum.

Halldór segir að vinnan sem þarna fer fram verði umfangsmikil, það verða mörg mál á dagskrá og dagarnir langir. Um fimmtíu manns sækja fundinn frá Íslandi, en aðeins hluti af þeim eru fulltrúar.

Hlutverk fleiri en einungis stjórnvalda

Halldór segir að þar sem búið er að semja um lang flest sem hægt sé að semja um muni rík áhersla fara í að ná árangri í markmiðunum sem ríkin hafa sett sér. Það sé mikilvægt að tengja inn í svona fundi ekki aðeins fulltrúa ríkjanna heldur einnig áhrifafólk í fjármálaheiminum.

Þá skipti gríðarlegu máli að hafa unga fólkið með á svona fundum ásamt fjölmörgum vísindamönnum. Á fundinum munu einnig höfundar loftslagsskýrslna sitja fyrir svörum.

mbl.is