Snerti kynfæri sín fyrir framan unga drengi

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlmanninn í tólf mánaða fangelsi.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlmanninn í tólf mánaða fangelsi. Ljósmynd/Þór

Karlmaður á áttræðisaldri var nýlega sakfelldur af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa sært blygðunarsemi drengja er hann fylgdist með þeim og snerti í leið kynfæri sín. Maðurinn hefur áður verið dæmdur fyrir svipuð brot.

Manninum var gefin sök fyrir að hafa, að minnsta kosti fimm sinnum, staðið ber að neðan við glugga á heimili sínu og snert kynfæri sín meðan hann fylgdist með ungum piltum á aldrinum átta til þrettán ára. Brotin áttu sér stað með rúmlega árs tímabili.

Fram kom í skýrslutökum af brotaþolunum að brotin hafa fengið verulega á þá. Þá lýstu foreldrar þeirra afleiðingum brotanna. 

Dómnum þótti 12 mánuða fangelsi hæfileg refsing með hliðsjón af því að ákærði hafði þrisvar sinnum áður verið dæmdur fyrir samskonar brot. Vegna fjölda tilvika og ítrekaðra brota ákærða þótti ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna. Þá þótti mikilvægt að við fullnustu refsingarinnar yrði litið til stöðu ákærða og þess gætt að hann fengi þá heilbrigðisþjónustu sem hann þarf á að halda. Maðurinn þarf einnig að borga brotaþolum miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert