Segir Íslendinga hafa sýnt gott fordæmi

Frá loftslagsþinginu COP26 í Glasgow.
Frá loftslagsþinginu COP26 í Glasgow. Ljósmynd/COP26

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kveðst ósammála því að Ísland hafi ekkert til brunns að bera á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP26 sem hófst formlega í Glasgow í dag. Hann telur þó að Ísland geti gert enn betur í loftslagsmálum og að huga verði að orkuskiptum í atvinnugreinum á borð við sjávarútveginn, landbúnaðinn og ferðaþjónustunni.

Yfir 100 leiðtogar munu koma saman á ráðstefnunni um ræddu, sem hefur meðal annars verið lýst sem uppgjörstíma Parísarsamkomulagsins. Þar munu ríkin meðal annars endurskoða og uppfæra framlögin í Parísarsamkomulaginu. Auk þess sem þau áttu að skila inn framtíðarsýn um hvernig skuli tryggja kolefnishlutleysi. Mun Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra meðal annars flytja erindi á morgun sem sýnt verður frá í beinu streymi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ísland ekki að koma með neitt sérstakt að borðinu

Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna, hefur farið gagnrýnum orðum um framlag Íslands til umhverfismála. 

Í samtali við mbl.is í gær sagði hún að Ísland væri í raun ekki að koma með neitt sérstakt að borðinu í Glasgow. Telur hún að Ísland hafi möguleika til þess að hafa áhrif í loftslagsmálum en að það sé ekki endilega raunin nú.

„Það sem Ísland kemur með að borðinu er að við erum eitt af ellefu ríkjum sem að hafa lögfest markmið um kolefnishlutleysi og það árið 2040, á meðan að samningurinn hvetur ríki til að vera kolefnishlutlaus upp úr miðri öldinni. Þannig það hefur Ísland fram á að færa. Ísland hefur líka hert markmið sín í samfloti með Evrópusambandinu og Noregi, það er að segja að fara upp í 55% samdrátt í losun fyrir árið 2030. Það er með því metnaðarfyllsta sem við sjáum í umræðunni.

Við erum auk þess nýbúin að samþykkja nýja stefnu um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum. Það er í fyrsta skiptið sem það er unnið á Íslandi. Þannig Ísland kemur sannarlega með fréttir inn á þennan fund þó að allt þetta hafi þegar komið fram hér á landi. Svo náttúrulega vill Ísland hvetja önnur ríki til að setja sér metnaðarfyllri markmið,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Telur Íslendinga geta sýnt fordæmi

Nú eru Íslendingar með eitt stærsta kolefnisfótspor í Evrópu, getum við með sannfærandi hætti hvatt aðrar þjóðir til metnaðarfyllri markmiða eins og staðan er hjá okkur í dag?

„Já. Við erum með markmið sem að eru alveg sambærileg við aðrar þjóðir í Evrópu þannig mér finnst alveg eðlilegt að við séum að hvetja aðrar þjóðir áfram. Kolefnissporið okkar Íslendinga er hins vegar hátt vegna þess að það er mjög mikil losun frá landi vegna landnýtingu, af því að hér hefur orðið mikil landeyðing. Það er alveg sérstakt viðfangsefni hér á Íslandi sem er mjög ólíkt því sem að gerist eiginlega alls staðar annars staðar í heiminum.“

Segir Guðmundur þá Ísland hafa sett gott fordæmi m.a. í innflutningi á nýorkubílum en þar sitjum við í öðru sæti á heimsvísu á eftir Noregi. Nefnir hann einnig þá aldalöngu reynslu sem Íslendingar hafa af landgræðslu sem við höfum meðal annars miðlað til annarra þjóða. Það sama eigi við um jarðhitann.

„Síðan erum við að sjá ótrúlega spennandi verkefni sem hafa verið að fæðast á síðustu árum eins og carbfix verkefnið þar sem verið er að dæla niður koltvísýringi í berglög þar sem hann verður að kristöllum. Þar með er búið að taka hann úr verksmiðjum eða bara beint úr andrúmsloftinu. Þannig að það eru margar lausnir sem geta fæðst í litlu landi sem geta orðið fyrirmynd að því hvernig hægt er að skala slík verkefni upp með stærri og áhrifa meiri þætti annars staðar í heiminum.“

Hugað verði að orkuskiptum í ákveðnum atvinnugreinum

Að sögn Guðmundar hefur nú miklu fjármagni verið varið í rannsóknir til að meta umfang þeirra losunar sem berst frá landi og hvernig við getum staðið vísindalega betur að því hvað við erum að binda mikið. Fór þetta verkefni af stað í fyrra og stendur til ársins 2023.

Að því sögðu telur Guðmundur Íslendinga geta gert enn betur þegar kemur að umhverfismálum og telur hann mikilvægt að hugað verði sérstaklega að orkuskiptum í sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu. Segir hann að ná megi meiri árangri í þessum atvinnugreinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert