Engin svör borist

Landspítali hefur nú beðið um frest í tvígang vegna fyrirspurnar …
Landspítali hefur nú beðið um frest í tvígang vegna fyrirspurnar umboðsmanns. mbl.is/Jón Pétur

Engin svör hafa borist frá Landspítala við fyrirspurn frá embætti umboðsmanns Alþingis er varðar langtímavistun sjúklings á öryggisgangi réttargeðdeildarinnar á Kleppi. Upphaflega hafði spítalinn til 21. október að bregðast við fyrirspurn embættisins en hefur nú beðið um frest í tvígang.  Þetta staðfestir embætti umboðsmanns Alþingis.

Í svari Landspítala við fyrirspurn mbl.is kemur fram að ástæðuna megi rekja til þess að verið sé að vanda til verka.

Greint var frá því í síðasta mánuði að sjúklingur á Kleppi hefði dvalið í samtals 572 daga á öryggisgangi á Kleppi, með og án rýmkunar, á tímabilinu 1. október 2018 og fram til 1. júní 2021. 

Á grundvelli frumkvæðisheimildar óskaði umboðsmaður Alþingis í kjölfarið eftir frekari upplýsingum og gögnum frá Landspítala um langtímavistunina. Var þá gefinn frestur til 21. október 2021. 

Meðal þeirra upplýsinga sem óskað var eftir var ástæða vistunar, aðdragandi hennar, hvernig upplýsingagjöf um réttindi sjúklings var háttað, hverjir voru upplýstir um vistun viðkomandi, hver aðbúnaður sjúklings var á meðan vistun stóð og afrit af meðferðaráætlun sjúklingsins.

Engin verkfæri til að knýja fram svör

Upphaflega átti svar Landspítala að berast þann 21. október síðastliðinn. Spítalinn taldi sig þó ekki geta svarað fyrir þann tíma og fékk frest fram til mánaðarmóta. Nú hefur stofnunin þó aftur beðið um frest og nær hann fram til 22. nóvember. Er það lokafresturinn sem verður gefinn.

Vilhelmína Ósk Ólafsdóttir, skrifstofustjóri á sviði frumkvæðismála og OPCAT hjá umboðsmanni Alþingis, segir embættið ekki með nein verkfæri til að knýja spítalann til svara. 

„Við getum alltaf tekið mál til meðferða bara á þeim grundvelli upplýsinga sem liggja fyrir en það er matsatriði hvort að það sé gagnlegt. [...] Auðvitað viljum við halda svona málum vel áfram af okkar hálfu. Auðvitað myndum við kjósa að svörin bærust alltaf á réttum tíma, þá sérstaklega þar sem að um er að ræða mál þar sem hagsmunir eru miklir. En eins og ég segi þá er lítið sem að við getum gert nema þá að bíða,“ segir Vilhelmína.

Ekki útilokað að tafirnar verði teknar til athugunar

Í skriflegu svari Landspítala við fyrirspurn mbl.is kemur fram að ástæðan fyrir því að svörin væru dreginn á langinn væri að það kosti mikla vinnu að afla þeirra gagna sem óskað væri eftir. Þyrfti starfsfólk að fara í gegnum alls kyns gögn og sækja viðeigandi upplýsingar. Þetta tæki tíma. Væri þá áhersla lögð á að svara fyrirspurninni vel og vandlega og þar af leiðandi væri óskað eftir fresti.

Vakin er þó athygli á því að ítrekaðar tafir geta leitt til frekari athugunar á því hvers vegna svör eru ekki að berast. Getur embætti umboðsmanns þá meðal annars skoðað hvort að skráningarvandi sé til staðar eða annað álíka sem veldur því að erfitt er að afla gagna. Er því ekki útilokað að slíkt komi til skoðunar hjá embættinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert