Kallar eftir breytingum á „meingölluðu“ kerfi

„Kerfið í raun býður upp á tvöfalt aðgengi en það …
„Kerfið í raun býður upp á tvöfalt aðgengi en það hafa ekki allir hafa kost á því, tíma og peninga vegna,“ segir Brynja. mbl.is/Kristinn Magnússon

Foreldrar sem búsettir eru í Reykjavík þurfa að ferðast reglulega til Akureyrar með dóttur sína til þess að sækja heilbrigðisþjónustu fyrir hana. Sama heilbrigðisþjónusta er samt sem áður í boði í höfuðborginni, vandamálið er einfaldlega að þar þyrfti stúlkan að bíða í tvö og hálft ár eftir meðferð sem er henni nauðsynleg. Heilbrigðisþjónustan sem um ræðir, meðferð talmeinafræðings, er þá ekki niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands þar sem foreldrarnir hafa ákveðið að leita til nýútskrifaðs talmeinafræðings.

„Ég kalla bæði eftir skýringum og breytingum á þessu meingallaða kerfi vegna þess að þetta þjónar ekki hagsmunum barnanna, langt í frá,“ segir Brynja Halldórsdóttir, móðir stúlkunnar.

Brynja segir að það hafi verið flókið að komast að því hvernig hún og Sigurður Egill Sigurðsson, faðir stúlkunnar, ættu að snúa sér í málinu þegar þau áttuðu sig á því að dóttir þeirra þyrfti líklega á talþjálfun að halda.

„Mér fannst þetta rosalega mikill frumskógur,“ segir Brynja.

Númer 723 í röðinni

Fyrir um hálfu ári fékk dóttir hennar beiðni frá heimilislækni svo hún gæti komist á biðlista hjá talmeinafræðingi. Síðan þá hefur hún verið á biðlistum allra talmeinafræðingastofa á suðvesturhorninu. Það hefur engu skilað og hefur Brynja fengið þau svör nú, hálfu ári síðar, að enn sé tveggja ára bið á flestum stöðum. Hjá einni stofunni fékk hún þær upplýsingar að þrátt fyrir hálfs árs bið væri dóttir hennar væri númer 723 í röðinni.

Brynja Björg Halldórsdóttir
Brynja Björg Halldórsdóttir

Hvaða reglur gera ykkur erfitt fyrir?  

„Mér finnst til dæmis ofboðslega skrýtið að nýútskrifaðir talmeinafræðingar komist ekki inn í rammasamning sjúkratrygginga. Þeir þurfa að afla sér tveggja ára starfsreynslu áður en þeir fá niðurgreiðsluna. Þeir geta verið nemar, undir handleiðslu talmeinafræðings með meiri reynslu, þá er þjónustan niðurgreidd en um leið og þeir útskrifast eru þeir það ekki. Flestir fara þá að vinna hjá sveitarfélagi. svo þegar þeir eru búnir að vinna í tvö ár hjá sveitarfélagi þurfa þeir að spyrja sig að því hvort þeir ættu að skipta um vinnu og fara að vinna á einkamarkaði þegar þeir eru með góða vinnu hjá sveitarfélagi,“ segir Brynja og bætir við:

„Eins finnst mér ofboðslega skrýtið að þau börn sem eru aðeins undir viðmiðum fá þjónustu frá talmeinafræðingum sveitarfélaga eftir stutta bið og fá þá sex til átta skipti en börn sem eru verulega undir viðmiðum eins og dóttir mín fara á þennan almenna biðlista og þurfa að bíða í tvö og hálft ár.“

Málþroski er nátengdur félagsþroska og því skiptir það miklu máli …
Málþroski er nátengdur félagsþroska og því skiptir það miklu máli að börn sem þurfa á talþjálfun að halda fái hana snemma á lífsleiðinni. Myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Fær ekki aðstoð hjá sveitarfélaginu

Brynja fékk skýrslu um málþroska dóttur sinnar í gegn mikilli harðfylgi í haust frá talmeinafræðingi á vegum borgarinnar

„Það mat sýndi að hún væri langt undir viðmiðum; þess vegna gætum við ekki fengið aðstoð frá borginni og þyrftum bara að bíða áfram á biðlistum hjá einkastofunum.“

Brynja segir það skipta miklu máli að börn sem þurfa á talþjálfun að halda fái hana eins snemma á lífsleiðinni og mögulegt er.

„Bilið á milli hennar og jafnaldra breikkar. Málþroski er alveg nátengdur félagsþroska. Börn sem eiga erfitt með að tjá sig eiga erfitt með að eignast vini og vera í félagslegum samskiptum svo þetta bitnar rosalega á þessum börnum,“ segir Brynja og jafnframt:

„Það er líka alveg dæmigert fyrir börn sem eiga erfitt með að tjá sig að þau virðast agressív í hegðun. Ef þau ná ekki að tjá sig grípa þau frekar til handanna.  það lítur oft út eins og þessi börn séu með hegðunarvandamál þegar raunin er sú að þau geta bara ekki tjáð sig. Það hjálpar þeim ekki að eignast vini.“

Í forréttindastöðu að geta gripið til þessa

Tveggja og hálfs árs bið þótti Brynju ekki boðleg og ákváðu foreldrarnir því að leita til nýútskrifaðs talmeinafræðings á Akureyri, eftir að hafa fengið ábendingu um þann möguleika á lokuðum Facebook hópi. Þá fékk Brynja tíma fyrir dóttur þeirra Sigurðar með einungis tveggja vikna bið. Hjá nýútskrifuðum talmeinafræðing þurfa foreldrar að greiða fullt gjald þar sem Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í kostnaði nema talmeinafræðingar hafi tveggja ára reynslu í faginu. Aukalega þurfa Brynja og Sigurður svo að greiða ferðakostnað og fá frí í vinnu eða veikindaleyfi.

„Við erum í algjörri forréttindastöðu að geta þetta. Við eigum fjölskyldu sem við getum gist hjá og skilningsríka vinnuveitendur og höfum efni á því að fara þessa leið,“ segir Brynja sem efast um að hvaða foreldrar sem er gætu farið sömu leið. Hver heimsókn til Akureyrar gæti auðveldlega kostað yfir 100.000 krónur ef kostnaður við flug, gistingu, vinnumissi og tíma hjá talmeinafræðingi eru tekin með í reikninginn.

Kerfið býður upp á tvöfalt aðgengi

Brynja greindi frá stöðu fjölskyldunnar á Facebook nýverið og komst hún þá að því að nokkur spurn væri eftir því að komast að hjá nýútskrifuðum talmeinafræðingum, jafnvel þó það þýddi að fólk þyrfti að ferðast langar vegalengdir og greiða meira en hjá talmeinafræðingum með reynslu.

„Ég kalla eftir breytingum. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna Sjúkratryggingar vilja ekki breyta þessu ákvæði í rammasamningnum og hvers vegna reglurnar hjá sveitarfélögunum eru þannig að börn sem eru í minni þörf bíða skemur en börn sem eru í meiri þörf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina