Það ætti enginn að tala svona um starfsfólkið

Flosi segir það yfirleitt atvinnurekendur sem geri lítið úr starfsfólki.
Flosi segir það yfirleitt atvinnurekendur sem geri lítið úr starfsfólki. mbl.is/​Hari

„Það er reynt að gera lítið úr störfum starfsmanna verkalýðshreyfingarinnar á hverjum degi. Venjulegast af atvinnurekendum en það er sótt að þeim úr ýmsum áttum og þeir eiga það alls ekki skilið. Þeir eru að sinna þessum bráðnauðsynlegu störfum af trúmennsku og ég vildi bara verja það og halda því til haga.“

Þetta segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins (SGS), spurður út í það hvort honum hafi þótt vera gert lítið úr starfsfólki Eflingar í umræðunni síðustu daga.

Í pistli sem birtist á heimasíðu SGS í gær segir Flosi að starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar eigi ekki skilið að gert sé lítið úr þeirra mikilvægu og góðu störfum. „Nóg er að okkur sótt þótt við tökum ekki þátt í því sjálf,“ segir meðal annars í pistlinum.

Það er þá væntanlega ekki til fyrirmyndar að formenn verkalýðsfélaga hnýti í starfsfólkið með slíkum hætti?

„Ég myndi telja að það ætti enginn að tala svona um starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar,“ segir Flosi.

Rétta að minna á mikilvæg störf 

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, og Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, hafa verið dugleg við það síðustu daga að gagnrýna starfsfólk skrifstofu Eflingar. Sólveig segir starfsfólkið aldrei hafa gefið sér vinnufrið og að lokum hrakið sig úr starfi. Það hafi aldrei verið viðurkennt að hún hafi fengið umboð félagsmanna til breytinga. Starfsfólkið hafi ekki skilið þessa baráttu.

Spurður hvort gagnrýni fyrrverandi formanns og framkvæmdastjóra Eflingar á starfsfólk skrifstofunnar hafi verið kveikjan að skrifunum, segir Flosi:

„Það hefur verið gagnrýnt í þessari umræðu af ýmsum, starfsfólk stéttarfélaga og mínir félagsmenn, og mér fannst rétt að minna á þau mikilvægu störf.“

Hann hafi viljað minna á það með pistlaskrifum sínum hvað starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar væri duglegt í sínum störfum og sinnti þeim af mikilli trú og fagmennsku. „Ég held að þessi pistill standi ágætlega fyrir sig,“ segir hann og vísar til pistilsins á heimasíðu SGS sem hefur yfirskriftina „Hugsjónafólk í starfi“.

Hlakkar til að vinna með nýrri forystu

Flosi vill ekki tjá sig um málefni einstakra aðildarfélaga og segist ekki vera í aðstöðu til að meta það hvort að sátt muni skapast á milli starfsfólks skrifstofu Eflingar og stjórnar með nýjum formanni og varaformanni. Þrátt fyrir að stjórnin, þar á meðal núverandi formaður, hafi ítrekað gefið það út að hún hafi stutt allar ákvarðanir Sólveigar.

„Þetta er það sem það félag ákvað að gera og við vonum bara og treystum því að Efling haldi áfram að vera öflugt stéttarfélag, eins og hingað til. Berjist bæði fyrir sínum málum og okkar sameiginlegu. Ég hlakka til að vinna með nýjum formanni og varaformanni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert