Safnaði í 40 vikur fyrir PlayStation 3

Eggert Unnar hefur verið sinn eigin yfirmaður í tæp þrjú …
Eggert Unnar hefur verið sinn eigin yfirmaður í tæp þrjú ár. mbl.is/Unnur Karen

Þegar Eggert Unnar Snæþórsson uppgötvaði að hann gæti unnið við að streyma tölvuleikjum á netinu fór að bætast verulega í tölvuleikjaaðstöðuna hans eða „settöppið“ eins og það er gjarnan kallað.

Eggert Unnar er fyrsti viðmælandinn í SETTÖPP – nýrri þáttaröð þar sem rafíþróttavefurinn heimsækir hina ýmsu rafíþróttamenn og aðra í bransanum til að skoða settöppin þeirra.

Fór því vefurinn heim til Eggerts og bar góssið augum.

Hvað ætli þetta kosti allt saman?

„Mjög góð spurning,“ segir Eggert og glottir. „Fólk verður að gera sér grein fyrir því að ég er búinn að vera að safna í settöppið síðan ég var kannski 13 ára.“

Gott dæmi um það sé þegar hann safnaði fyrir PlayStation 3 tölvunni sinni.

„Þá fékk ég þúsund krónur á viku frá mömmu fyrir að gera svona heimilisstörf og safnaði bara í 40 vikur samfleytt til að eiga efni á tölvunni. Aginn sko.“

Twitch-síðu Eggerts má finna hér.

Velgengnin kemur ekki að sjálfu sér

Og agaður er hann, enda er hann sinn eigin yfirmaður og hefur verið í tæp þrjú ár.

„Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hvað þú þarft að streyma reglulega,“ segir Eggert Unnar og bætir við að það skipti öllu máli að halda festu í streyminu.

„Þú þarft að vera á réttum tíma og á réttum stað. Vera ótrúlega duglegur. Þaðan kemur velgengnin.“

SETTÖPP er nýr þáttur rafíþróttavefs mbl.is og sjá má fyrsta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert