Ráðleggja fólki að ferðast ekki til Íslands

Rochelle Walensky, forstjóri Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna.
Rochelle Walensky, forstjóri Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna. AFP

„Forðist ferðalög til Íslands. Ef þið verðið að ferðast til Íslands, verið viss um að þið séuð fullbólusett áður en þið ferðist.“

Svo hljómar viðvörun sem Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna gaf út nú í kvöld að íslenskum tíma, en stofnunin hefur sett Ísland í fjórða og efsta flokk hvað varðar áhættu vegna útbreiðslu faraldurs kórónuveirunnar.

Fleiri lönd fyrir á fleti

Ísland er þannig fært úr þriðja og næstefsta flokki ásamt Tékklandi og Ungverjalandi.

Fyrir eru í fjórða flokki Bretland, Belgía, Holland, Singapúr og Tyrkland, svo dæmi séu nefnd.

„Vegna núverandi ástands á Íslandi geta jafnvel fullbólusettir ferðamenn átt á hættu að smitast og dreifa afbrigðum Covid-19,“ segir í viðvörun stofnunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina