Íbúðarhús rísi á Metró-reitnum

Svona lítur reiturinn út í dag. Lágreistur hamborgarastaður er eina …
Svona lítur reiturinn út í dag. Lágreistur hamborgarastaður er eina húsið þar og stór hluti hans bílastæði. Ljósmynd/Trípólí arkitektar

Reitir fasteignafélag hf. hefur með bréfi til Reykjavíkurborgar óskað eftir samstarfi um gerð nýs skipulags og uppbyggingu á lóð nr. 56 við Suðurlandsbraut. Á lóðinni er nú 715 fermetra veitingahús sem upphaflega var reist fyrir hamborgarastaðinn McDonalds en hýsir nú veitingastaðinn Metro. Erindinu var vísað til umsagnar verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Suðurlandsbraut 56 er 4.039 fermetra lóð í Skeifunni, á horni Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs, að því er fram kemur í bréfi Reita. Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé mjög lágt eða 0,18. Lóðin er skilgreind á miðsvæði M3a í aðalskipulagi þar sem fyrirhuguð sé uppbygging og umbreyting iðnaðar- og verslunarhverfis í blandaða byggð.

Hugmynd arkitektanna að útliti húsanna.
Hugmynd arkitektanna að útliti húsanna. Ljósmynd/Trípólí arkitektar

Torg og borgargarður

Lóðarhafi, Reitir, hefur látið vinna staðháttagreiningu og tillögu að nýrri uppbyggingu á lóðinni í samstarfi við Trípólí arkitekta. Um er að ræða tillögu að samgöngumiðuðu skipulagi sem fléttar nýbyggingu og almenningsrými saman við fyrirhugaðar breytingar á Suðurlandsbraut. Tillagan geri ráð fyrir samspili og tengingu við biðstöð borgarlínu og að hringtorg við gatnamót Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs verði aflagt ásamt aðrein frá hringtorgi inn í Skeifuna. Gert sé ráð fyrir torgrými, borgargarði og 87 íbúðum í tveimur samtengdum 5-7 hæða byggingum auk 1.300 fm af verslunar- og þjónusturými. Stærð íbúðanna verður á bilinu 45-135 fermetrar. Markmið tillögunnar sé að búa til kennileiti, aðdráttarafl og mikilvægan tengipunkt fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem eiga leið í Skeifuna.

„Að mati Reita er hér um að ræða heilsteypta tillögu sem sýnir hvernig mætti skapa aðlaðandi borgarumhverfi á mikilvægu horni við nýjan samgönguás. Óskað er eftir samstarfi við skipulagsyfirvöld varðandi tillöguna eða eftir atvikum aðrar útfærslur á skipulagi lóðarinnar,“ segir m.a. í bréfi Reita.

Í greinargerð Trípóli arkitekta kemur fram að gert sé ráð fyrir að stækka lóðina við Suðurlandsbraut 56 til austurs, þar sem hringtorgið var, og til suðurs í átt að Faxafeni 9. Við þetta stækki lóðin um tæplega 2.000 fermetra, eða úr 4.039 fm í 6.220 fm. Nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt rammaskipulagi sé 1,7 og því verði leyfilegt byggingarmagn 10.574 fm.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert