Minntust þeirra sem látist hafa í umferðinni

Frá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag.
Frá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa var haldinn í dag. Í ár var kastljósinu meðal annars beint að afleiðingum þess að nota ekki öryggisbelti. Táknrænar minningarstundir voru haldnar um land allt.

Minningarathöfn var haldin við Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð í dag. Forseti Íslands og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra voru viðstaddir og fluttu ávörp. Kveikt var á kertum til minningar um fórnarlömb umferðarslysa. 

Alls voru sautján minningarviðburðir skipulagðir um land allt í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg og voru flestir þeirra í beinu vefstreymi.

Frá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag.
Frá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag. Ljósmynd/Óttar Geirsson

1.592 látist

Einkennislag dagsins er lag KK, When I Think of Angels, í flutningi hans og Ellenar sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992.

Fram kemur í tilkynningu frá Samgöngustofu að tilgangurinn með deginum sé að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni. Þá er rík hefð fyrir því á minningardeginum að færa starfsstéttum, sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður, þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf. 

Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. 

Frá því að fyrsta banaslysið var skráð hér á landi 25. ágúst 1915 hafa 1.592 látist í umferðinni á Íslandi (til og með 16. nóvember 2021). Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum. 

Það sem af er þessu ári hafa sjö einstaklingar látið lífið í umferðinni hér á landi. Allt árið 2020 létust sjö einstaklingar í umferðinni en árið 2019 sex manns.

Frá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag. Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra …
Frá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag. Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. Ljósmynd/Óttar Geirsson
mbl.is