Ekki ákveðið hvort yngri börn verði bólusett

Þórólfur segir að skoða þurfi niðurstöður frá Lyfjastofnum Evrópu áður …
Þórólfur segir að skoða þurfi niðurstöður frá Lyfjastofnum Evrópu áður en ákvörðun verður tekin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um það hvort börn á aldinum 5 til 11 ára hér á landi verði bólusett gegn covid-19, en Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir nauðsynlegt að skoða niðurstöður hjá Lyfjastofnun Evrópu áður sú ákvörðun verður tekin. Ekki hefur enn fengist markaðsleyfi í Evrópu fyrir notkun bóluefnis gegn covid-19 fyrir þennan aldurshóp en stofnunin hefur umsókn frá Pfizer til skoðunar í þeim efnum.

„Nei, það hefur ekki verið tekin ákvörðun en mér finnst að ef þetta allt lítur vel og út og umsögnin hjá Lyfjastofnun verður mjög jákvæð þá finnst mér mjög líklegt að við munum bjóða fólki upp á þessa bólusetningu. Við þurfum þá bara að gera grein fyrir því af hverju. Hver er áhættan af smiti í þessum hópi. Við sjáum til dæmis á upplýsingum frá Bandaríkjunum að mjög mörg börn hafa þurft að leggjast inn á spítala vegna covid og hafa lent í alvarlegum aukaverkunum og dauðsföllum,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is

„Það er náttúrulega byrjað að bólusetja þessi börn í Bandaríkjunum, Kanada og Ísrael og þær rannsóknir sem liggja fyrir benda til þess að bóluefnið virki bara mjög vel og þeir hafa ekki verið að sjá neinar aukaverkanir hjá börnunum. En við þurfum að skoða niðurstöðuna hjá Lyfjastofnun Evrópu áður en við ákveðum okkur.“

Miðað við upplýsingar frá Bandaríkjunum eru alvarlegri afleiðingar vegna covid miklu alvarlegri hjá börnum, eins og fullorðnum, heldur en afleiðingar aukaverkana vegna bólusetningar, að sögn Þórólfs.

Tilfelli hjartavöðvabólgu og gollurshúsbólgu hafa komið upp hjá yngra fólki eftir bólusetningu en Þórólfur segir þau ekki mörg. Mun fleiri tilfelli hafi komið upp hjá einstaklingum eftir covidsmit. „Covid veldur þessu líka og þær eru miklu algengari eftir covid heldur en eftir bólusetninguna.“

Vonaðist eftir meiri þátttöku á aldrinum 12 til 15 ára

Aðspurður hvort hann telji að foreldrar barna á aldrinum 5 til 11 muni taka vel í boð um bólusetningu, ef af henni verður, segir segist hann ekki geta svarað til um það, en að kannanir sem hafi verið gerðar á afstöðu foreldra til bólusetningar barna hafa verið mjög jákvæðar.

75 prósent þátttaka var í bólusetningu barna á aldrinum 12 til 15 ára en Þórólfur segist hafa vonast eftir betri þátttöku þar. „Það er alveg greinilegt að það virðist vera svo á okkar gögnum að bólusetningin virðist vera að vernda yngra fólk mjög mikið, jafnvel meira heldur en eldri einstaklinga.“

Líkt og fram kom í frétt mbl.is um laugardag er pöntun af bóluefni fyrir þennan aldurshóp væntanleg til landsins í lok desember, þó ákvörðun um bólusetningu hafi enn ekki verið tekin. Bylgjan nú er að miklu leyti drifin áfram að smitum hjá börnum á þessum aldri, sem er ólíkt öðrum bylgjum faraldursins hér á landi fram að þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert