Telur mikilvægt að börn verði bólusett

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur mikilvægt að börn verði …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur mikilvægt að börn verði bólusett við kórónuveirunni. Eggert Jóhannesson

Örvunarbólusetningar og bólusetningar barna við kórónuveirunni munu koma til með að hafa mikil áhrif á útbreiðslu veirunnar hér á landi. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is.

Hefðum þurft að grípa fyrr til harðari aðgera

Útlit sé þó fyrir að töluverð pest verði yfir landinu yfir jólin og líklega sé ekkert hægt að gera í því núna, að sögn Kára.

„Ef við hefðum ætlað að vera með pestafrí jól hefðum við þurft að grípa til mjög harðra aðgerða fyrir þó nokkru síðan.“

Kveðst hann þó hafa trú á þeim sóttvarnaaðgerðum sem heilbrigðisyfirvöld hafa gripið til í yfirstandandi bylgju faraldursins, sem er sú stærsta hér á landi fram að þessu.

„Við verðum að sætta okkur við það að heilbrigðisyfirvöld eru að taka nokkuð skynsamlega á þessu nokkuð skynamlega stendur og ég held að við munum geta haldið býsna gleðileg jól þrátt fyrir allt.“

Spurður segir hann örvunarbólusetningar koma til með að hafa mikil áhrif á útbreiðslu veirunnar enda hafi þær gefið góða raun erlendis.

„Samkvæmt rannsóknum frá Ísrael eru þeir sem fá þriðja skammtinn ellefu sinnum ólíklegri til að sýkjast og nítján sinnum ólíklegri til að verða illa lasnir heldur en þeir sem hafa aðeins fengið tvo skammta. Mér finnst það bara býsna myndarleg áhrif.

Börn eru stór hluti þeirra sem eru að sýkjast

Pöntun af bóluefni fyrir börn á aldrinum 5 til 11 ára gegn kórónuveirunni er væntanleg til landsins í lok desembermánaðar, að því er mbl.is greindi frá.

Inntur eftir því segist Kári telja afar mikilvægt að börn í þessum aldurshópi verði bólusett gegn veirunni enda virðist yfirstandandi bylgja faraldursins drifin af smit­um hjá óbólu­sett­um börn­um á grunn­skóla­aldri.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að það verði gert. Sem stendur þá eru börn á þessum aldri afskaplega stór hundraðshluti þeirra sem eru að sýkjast og flytja pestina milli fólks.“

Vegið að frelsi þeirra sem kunna að smitast

Ekki er tíma­bært að tala um bólu­setn­ing­ar­skyldu eða auk­in rétt­indi bólu­settra um­fram óbólu­setta hér á landi, að því er Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir greindi frá í samtali við mbl.is 22. nóvember síðastliðinn.

Kári kveðst hins vegar steinhissa yfir því að enn sé um 10% þjóðarinnar sem ekki vill láta bólusetja sig við veirunni og segir aukin réttindi bólusettra umfram óbólusetta réttlætanleg.

„Þótt ég sé ekki mikill stuðningsmaður þess að gera eitthvað við líkama fólks sem það vill ekki sjálft ber að hafa í huga að þegar menn eru að nýta sér frelsi til að láta ekki bólusetja sig eru þeir að vega að frelsi annarra sem þeir kunna að smita. Svo það má færa rök fyrir því að koma eigi þeirri skyldu á að þeir einstaklingar sem ekki vilja láta bólusetja sig verði skikkaðir í sóttkví að eilífu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert