Spáir slyddu eða snjókomu

Úrkoma verður snjór eða slydda víðast.
Úrkoma verður snjór eða slydda víðast. mbl.is/RAX

Heldur svalara verður í dag en var í gær samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings á vakt hjá Veðurstofu Íslands.

„Úrkomubakki kemur inná land síðdegis og mun úrkoman við suður- og vesturströndina vera snjókoma eða slydda, en gæti rignt á stöku stað með hita um frostmark,“ segir í hugleiðingunum. 

Annars staðar byrjar að snjóa seinnipartinn og í kvöld, en þar mun hitinn líklega aldrei komast yfir frostmark.

Á morgun færist vindur í norðlægrar áttar, víða 5-10 metrar á sekúndu. Él fyrir norðan og austan en styttir smám saman upp sunnan jökla. Frost verður um allt land.

mbl.is