Grunur um fyrsta Ómíkron-tilfellið á Íslandi

Þessi snjókarl býður alla gesti velkomna í sýnatökustöðuna við Suðurlandsbraut. …
Þessi snjókarl býður alla gesti velkomna í sýnatökustöðuna við Suðurlandsbraut. Þó kannski ekki Ómíkron-afbrigðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grunur leikur á um að fyrsta tilfelli nýs afbrigðis kórónuveirunnar, Ómíkron, sé komið upp hér á landi. Það hefur þó ekki fengist staðfest með óyggjandi hætti.

Upplýsingafulltrúi almannavarna tjáði mbl.is í kvöld að unnið væri að því að raðgreina sýnið sem um er að ræða. Ekki fengust þó upplýsingar um hvar sýnið hefði verið tekið eða þá af hvaða tilefni.

Uppfært:

Sjúklingur á Landspítalanum hefur greinst með Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar.

Sá grunur, sem mbl.is greindi fyrst frá fyrr í kvöld, hefur því verið staðfestur.

Hversu vel bóluefni duga gegn Ómíkron-afbrigðinu er enn á huldu. Búast má við niðurstöðum rannsókna um það á næstu dögum.

Afbrigðið var fyrst uppgötvað í Suður-Afríku en þarf þó ekki endilega að hafa orðið til þar. Suðurafrískir læknar hafa sagt að svo virðist sem veikindi af völdum afbrigðisins séu vægari en af öðrum afbrigðum.

Uppgötvaðist í Suður-Afríku

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í gær að þrátt fyrir að stjórnvöld víða um heiminn hefðu ákveðið að herða sóttvarnaraðgerðir á landamærum sínum vegna afbrigðisins, væru engar breytingar fyrirhugaðar á landamærum Íslands að svo stöddu.

Hann sagði það þó geta breyst í ljósi nýrra upplýsinga og að hann væri enn að bíða eftir frekari upplýsingum um hið nýja afbrigði.

Hafði ekki greinst hér í gær

Þórólf­ur hef­ur áður sagt að mjög erfitt verði að koma í veg fyr­ir að af­brigðist ber­ist hingað til lands.

„Það eru afar fá lönd sem hafa náð að raðgreina all­ar veir­urn­ar eins og við höf­um gert. Þannig við get­um sagt með nokk­urri vissu að þetta af­brigði veirunn­ar hef­ur ekki greinst hér,“ sagði hann í gær.

„Ég veit þó af nokkr­um til­fell­um sem greinst hafa í Skotlandi, sem hafa ekki tengsl við út­lönd, sem seg­ir okk­ur að þetta sé komið víðar en menn halda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert