Vill að leiktæki verði skoðuð

Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og nefndarmaður í umhverfis- og heilbrigðisráði Reykjavíkurborgar, segist ætla að taka upp við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur slys sem varð á skólalóð Korpuskóla síðdegis í gær.

Þar var fimm ára stúlka hætt komin þegar hún renndi sér niður lokaða rennibraut, sem búið var að loka í annan endann með hörðum snjó.

Herdís Storgaard, verkefnisstjóri slysavarðsstofu barna, sagði við mbl.is fyrr í dag að ef stúlkan hefði rennt sér með höfuðið á undan hefði hún mögulega geta kafnað í snjónum.

„Þetta er hrikalegt mál og ég vil, sem nefndarmaður í umhverfis- og heilbrigðisráði borgarinnar, vekja athygli Heilbrigðiseftirlitsins á þessu máli. Þar að auki ætla ég að beita mér fyrir því að Heilbrigðiseftirlitið taki út þessi leiktæki á leikvöllum borgarinnar og taki það til skoðunar að rennibrautin verði tekin niður,“ segir Björn Gíslason í samtali við mbl.is.

mbl.is