Lögregla leitar konu sem ók á unglingsstúlkur

Gatnamót Nýbýlavegar og Dalvegar. Mynd úr safni.
Gatnamót Nýbýlavegar og Dalvegar. Mynd úr safni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar konu sem ók BMW-bifreið á tvær unglingsstúlkur á Dalvegi í Kópavogi á laugardagskvöld. 

Stúlkurnar voru á rafskútu þegar konan ók á þær.

Fram kemur að konan hafi numið staðar í kjölfar þess að hún keyrði á stúlkurnar. Hún hafi þá rætt við þær og skutlað þeim í Mjóddina. Síðar fóru stúlkurnar á slysadeild.

Mikilvægt að tilkynna lögreglu

Ítrekað er í tilkynningu lögreglunnar að mikilvægt sé að ganga úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né þá að skemmdir hafi orðið, þegar atvik eins og þetta koma upp. Einnig sé mikilvægt að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar séu ekki ávallt sjáanlegir á vettvangi.

Konan er beðin að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000. Þá eru aðrir, sem upplýsingar geti veitt um málið, beðnir að hafa samband. Einnig má þá senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið rafn.gudmundsson@lrh.is.

mbl.is