Feðgar hlutu styrk en hvorugur vissi af hinum

Feðgarnir Atli Már og Hinrik Jósafat stilla sér upp með …
Feðgarnir Atli Már og Hinrik Jósafat stilla sér upp með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, eins og embætti hennar heitir nú orðið, en Áslaug Arna setti athöfnina áður en styrkjunum var útdeilt í Grósku í síðustu viku. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem var sérstaklega skemmtilegt við þessa úthlutun er að ég stofnaði Atlas Primer og faðir minn Atli Már Jósafatsson stofnaði Polar toghlera svo við vorum að fá styrk á sama tíma og í sama flokki,“ segir Hinrik Jósafat Atlason, sem vinnur að gervigreindarkennsluforritinu Atlas Primer, í samtali við mbl.is, en sú sérstaka uppákoma varð við haustúthlutun Tækniþróunarsjóðs í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýrinni á fimmtudaginn í síðustu viku að þeir feðgar hlutu hvor um sig 50 milljóna króna styrk án þess að vita fyrir fram hvor af annars styrkveitingu.

Fyrirtæki feðganna fengu aukinheldur hvor tveggju styrk í flokknum Vöxtur sem ætlaður er fyrirtækjum er náð hafa ákveðinni fótfestu á markaði og eru að undirbúa mikinn vöxt.

„Þegar við nefndum þetta við forsvarsmenn Tækniþróunarsjóðs heyrðum við að þetta hefði líklega ekki gerst áður, enda er mjög mikil samkeppni um þessa styrki og um 80% umsókna hljóta ekki styrk,“ heldur Hinrik áfram.

Sérstaklega hafi honum þó þótt broslegt að þeir feðgarnir höfðu ekki rætt saman í nokkra daga fyrir úthlutunina og kom því fullkomlega flatt upp á þá að hittast í Grósku á fimmtudaginn til að taka við styrkjum sínum en Hinrik hefur áður rætt áform sín með Atlas Primer og kennslu með fulltingi gervigreindar við Morgunblaðið.

Að lokum segir Hinrik það einnig vel í frásögu færandi að með Polar toghlerum feti Atli Már faðir hans í fótspor föður síns, afa Hinriks, Jósafats Hinrikssonar sem á sínum tíma stofnaði fyrirtækið J. Hinriksson sem einnig framleiddi toghlera. „Hann er því aðeins duglegri að viðhalda fjölskylduhefðinni á meðan ég er kominn yfir í menntatækni sem á víst lítið skylt við sjávarútveg,“ segir Hinrik að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert