Erfitt að vera án dætranna á jólunum

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, eyðir jólunum ein.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, eyðir jólunum ein. Ljósmynd/Aðsend

Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dótt­ir, þingmaður Viðreisnar, greindist smituð af kór­ónu­veirunni í gær. Hún segir heilsuna góða en andlegu heilsuna síðri.

„Það sem ég er fyrst og fremst með hugann við eru auðvitað jólin. Ég er mamma þriggja dætra og við verðum ekki saman á jólunum. Það er þyngsta höggið fyrir mig og rífur í mömmuhjartað,“ segir Þorbjörg í samtali við mbl.is.

Skrítið að senda aðra þingmenn í sóttkví

Eftir að Þorbjörg greindist smituð þurfti hún að hringja í aðra þingmenn sem hún hafði verið í samskiptum við og senda þá í sóttkví.

„Ég sendi þingmenn í sóttkví og það var pínu skrítið að hringja í fólk og tilkynna það en það var gott og fallegt að finna að stjórnarþingmenn, rétt eins og stjórnarandstöðuþingmenn, hafa ekki sýnt manni neitt nema hlýju og elskulegheit.“

Verslar jólagjafirnar á netinu

María Guðrún, níu ára dóttir Þorbjargar, bakaði þessar glæsilegu kökur …
María Guðrún, níu ára dóttir Þorbjargar, bakaði þessar glæsilegu kökur fyrir móður sína. Ljósmynd/Þorbjörg Sigríður

Að sögn Þorbjargar hafa vinir og vinkonur hennar hafa verið dugleg að senda henni matarsendingar og sömuleiðis mæla með sjónvarpsefni á Netflix. Er hún komin með lista af frönskum kvikmyndum sem hún ætlar að demba sér í. Þá komu dætur Þorbjargar með smákökusendingu til hennar í dag sem María Guðrún, níu ára dóttir hennar, bakaði.

Þorbjörg átti eftir að versla drjúgan hluta jólagjafanna og mun hún reyna klára kaupin á netinu.

„Stóra krísan er að ég átti töluvert eftir af jólagjafainnkaupum. Ég var á haus niðri í þingi öll kvöld og ætlaði að taka þess helgi í að gera skurk í jólagjafainnkaupum en núna er ég að reyna að finna út hverjir möguleikar mínir á internetinu eru. Það kemur í bakið á mér að vera upptekna mamman og frestari í eðli mínu,“ segir Þorbjörg hlæjandi.

Horfir á þingrásina heima

Allur þingflokkur Viðreisnar er smitaður af kór­ónu­veirunni og munu því fimm varaþingmenn flokksins taka sæti á Alþingi á morgun. Varaþingmennirnir sátu rafrænan fund í dag með þingflokknum þar sem farið var yfir málin og telur Þorbjörg hópinn strekan.

„Í dag sat ég rafrænan fund með þingflokknum og varaþingmönnum þar sem var verið að undirbúa nýtt fólk fyrir næstu þingviku. Það er mikill hugur í okkar fólki og það verður spennandi að liggja hérna heima og horfa á þingrásina. Það verður sterkt þing sem kemur saman á mánudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert