Fengu sælgæti í skóinn á erfiðasta tíma ársins

„Mínir samstarfsfélagar gera allt sem þeir geta til þess að …
„Mínir samstarfsfélagar gera allt sem þeir geta til þess að létta andann á þessum langerfiðasta tíma ársins.“ segir Páll í samtali við mbl.is. Árni Sæberg/Kristinn Magnússon

Fangar á Hólmsheiði fengu ánægjulega heimsókn þegar að jólasveinninn gerði sér ferð í fangelsið og skildi eftir gjafir. Fangelsismálastjóri segir þetta viðleitni til að lyfta upp andanum í fangelsinu.

Þar sem um er að ræða húsnæði sem sérstaklega er hannað til að utanaðkomandi komist ekki inn um glugga, reyndist verkefni jólasveinsins ögn snúið að þessu sinni. Til að bregðast við vandanum voru skór vistmanna því skildir eftir fram á gangi og viti menn, daginn eftir beið þeirra sælgæti í skónum.

Erfiðasti tíminn fyrir fanga

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir það hafa verið til gamans gert að létta andann í aðdraganda jóla, sem einkum er erfiðasti tími fanga.

„Mínir samstarfsfélagar gera allt sem þeir geta til þess að létta andann á þessum langerfiðasta tíma ársins. Þetta er mönnum gríðarlega þungt að geta ekki verið með fjölskyldu og ástvinum,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Við gerum það sem við getum bara. Þetta er svona brotabrot af því í okkar viðleitni að því að reyna að hafa hátíðlega stund í kring um jólin og gera okkar fólki vistina bærilegri.

Fangapresturinn heldur helgistund í fangelsum landsins. Síðan hafa tónlistarmenn komið og spilað fyrir fangana.“ Þar beri helst að nefna, Bubba Morthens, sem spilar vanalega á aðfangadag á Litla-Hrauni. Hann kemur aftur á móti ekki þessi jólin líkt og þau síðustu sökum sóttvarna.

„Hann kemur ekki núna í ár. Það eru nú bara þessar stífu ráðstafanir okkar vegna kórónuveirunnar sem veldur því.“

Í stað þess verður tónleikunum streymt til þeirra líkt og síðustu jól.

Heimsóknartími rýmkaður og fangarnir elda saman

Spurður út í heimsóknartíma yfir hátíðarnar á tímum heimsfaraldurs segir Páll að í upphafi hans hafi engar heimsóknir verið leyfðar en nú sé raunin sem betur fer önnur.

„Nú erum við líkt og aðrar stofnanir farin að lifa með veirunni þannig við vorum að rýmka reglurnar þannig að það geta komið allt að fjórir heimsóknargestir til hvers fanga, ásamt börnum, með því skilyrði að viðkomandi sé búinn að fara í hraðpróf innan síðustu 48 tíma,“ segir Páll. Skyldan nær þó ekki til þeirra sem fæddir eru eftir 2015.

Þá gefi mörg góðgerðarsamtök föngum gjafir yfir hátíðarnar auk þess sem fangar fá tvöfalt fæðisfé yfir hátíðarnar. „Þeir eyða miklum tíma í að elda dýrindis máltíðir og reyna að hafa það gott á þessum gleðidegi úti í almenna samfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert