Smáskjálftahrina í grennd við gossvæðið

Skjálftarnir eru að mælast norðaustur af gossvæðinu í átt að …
Skjálftarnir eru að mælast norðaustur af gossvæðinu í átt að Keili, en þó nær Fagradalsfjalli en Keili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Smáskjálftahrina sem er ekki ósvipuð þeirri sem reið yfir þremur vikum fyrir eldgosið í Fagradalsfjalli, hófst um fimmleytið í dag norðaustur af gossvæðinu í átt að Keili.

Þó er ekkert sem bendir beinlínis til þess að gos sé í vændum á þessu svæði, sem er nær gossvæðinu en Keili.

Klukkan 22.30 í kvöld voru skjálftarnir orðnir 340 talsins að sögn Böðvars Sveinssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu.

Skjálftarnir eru á 7-8 kílómetra dýpi en kvikusöfnun hefur verið á svæðinu um nokkurt skeið, þótt gosið í Fagradalsfjalli sé liðið undir lok í bili. 

„Það er kvikusöfnun í gangi í jarðskorpunni við Fagradalsfjall á sirka 11 kílómetra dýpi. Nýjustu mælingar sýna að það sé á um 11 kílómetra dýpi,“ segir Böðvar.

Meira en vanalega en ekki með „stórar áhyggjur“

Er þetta eitthvað meira núna en vanalega?

„Þetta er aðeins meira núna en hefur verið síðan skjálftarnir voru vegna gossins eða fyrir gos. En það getur alltaf komið aukin skjálftavirkni á Reykjanesskaganum.“

Svokallaður gosórói hefur ekki mælst enn og er ekkert sem bendir til þess að það sé endilega að koma gos núna, að sögn Böðvars. 

„Það er ekki búið að kalla út bakvakt eða neitt en við fylgjumst vel með. Við erum allavega ekki með stórar áhyggjur varðandi næstu klukkustundir,“ segir hann í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert