Auðveldara fyrir nýja kviku að komast upp

Frá Geldingadölum. Myndin er úr safni.
Frá Geldingadölum. Myndin er úr safni. mbl.is/Unnur Karen

Um átta hundruð jarðskjálftar hafa orðið frá miðnætti og um fimm þúsund í heildina síðan skjálftahrinan byrjaði við Fagradalsfjall 21. desember um klukkan 17.

Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir hrinuna sem nú er í gangi hafa minnkað örlítið frá því í gær þegar stærsti skjálftinn af stærðinni 4,9 varð frétt fyrir klukkan hálftíu í gærmorgun. Einn skjálfti yfir 4 stig varð um fimmleytið í morgun en síðan þá hafa skjálftarnir verið smærri.

Virknin er mest á svæðinu við Fagradalsfjall þar sem gosið var áður en síðan hrinan byrjaði er virknin búin að færast lítillega í suðvestur á móti Nátthaga.

Spurður hvort eldgos gæti verið í vændum segir hann að það verði að koma í ljós. Kvika sé á hreyfingu og að hún geti komið mjög hratt upp ef hún geri það á annað borð.

„Þegar stóra skjálftahrinan varð í vetur og gosið varð brotnaði bergið og þess vegna er auðveldara fyrir nýja kviku að komast upp,“ segir Bjarki.

Gervitunglamynd skoðuð

Gervitunglamynd var væntanleg í nótt sem getur varpað ljósi á stöðuna en að sögn Bjarka tekur marga klukkutíma að vinna úr henni. Von er á niðurstöðum úr henni eftirmiðdaginn eða í kvöld í fyrsta lagi.

Enginn fundur hefur verið ákveðinn hjá vísindaráði almannavarna í dag vegna stöðunnar sem er uppi en ef ný gögn koma fram mun það hugsanlega funda. Í gær voru tveir fundir haldnir, hefðbundinn upplýsingafundur og vísindaráðsfundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert