Líkist skjálftunum mánuðinn fyrir gosið

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands. Ljósmynd/Almannavarnir

Ekki er útilokað að skjálftahrinan við Fagradalsfjall sé til komin vegna þess að kvika sé að safnast upp og færa sig til undir yfirborði jarðar. Vísindamenn verða nú að safna gögnum og „bíða og sjá“ að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings.

„Þetta líkist þeim skjálftum sem voru mánuðinn fyrir gosið. Þeir eru langflestir á talsverðu dýpi, um sex kílómetra dýpi, og við verðum að bíða eftir niðurstöðum úr aðlögunarmælingum, GPS-mælingum og gervitunglamælingum til þess að sjá hvort það er gliðnun í gangi, hvort það sé merki um kvikuhreyfingu. Við verðum að bíða eftir þessu öllu áður en við förum að draga of miklar ályktanir,“ segir Magnús við mbl.is.

Eldgosinu í Geldingadölum er sagt lokið og nýleg skjálftahrina þarf …
Eldgosinu í Geldingadölum er sagt lokið og nýleg skjálftahrina þarf ekkert endilega að þýða að breyting verði á því. Vísindamenn bíða nú og sjá, eins og gjarnan er sagt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um kl. 17 í gær hófst hrina smá­skjálfta norðaust­ur af Geld­inga­döl­um. Alls hafa yfir 1.100 skjálft­ar mælst enn sem komið er. Stærsti skjálft­inn var 4,2 að stærð kl. 04:24 og fannst hann vel á suðvest­ur­horn­inu.

Aðrir tveir mæld­ust 3,8 að stærð kl. 02:51 og 04:55, að því er fram kem­ur á vef Veður­stof­unn­ar.

Vegna hrin­unn­ar sem nú stend­ur yfir hef­ur Veður­stof­an breytt flug­litakóða í app­el­sínu­gul­an en við það er eld­stöð sögð sýna aukna virkni og vax­andi lík­ur á eld­gosi.

Atburðarás í gangi sem gæti spannað áratugi og árhundruð

Það að „bíða og sjá“ er þekkt stef í jarðvísindum, vísindum aldanna og árþúsundanna. Magnús ítrekar að of snemmt sé að spá nákvæmlega fyrir um hvað geti verið á seyði á Reykjanesskaganum. Raunar bendir hann á að við séum stödd í upphafi atburðarásar sem gæti spannað ár og áratugi.

„Þegar við tölum um gosið í Geldingadölum þá erum við að tala um þann eina atburð. Við verðum að gera greinarmun á eldgosi og svo gliðnunar- eða umbrotahrinu á Reykjanesskaga. Ef við horfum til sögunnar þá er þetta gos, sem nú er nýlokið, svona meðalgos á skaganum að stærð. Og ef við horfum á síðustu hrinu og bökkum aftur um þúsund ár eða svo, þá sjáum við að það komu tímabil þar sem gos voru nokkuð tíð en svo komu tímabil í kannski 100 ár þar sem ekkert gaus. Hvar við erum í þessu, vitum við ekki. Hver þróunin verður næstu ár eða áratugi, vitum við ekki. Það sem við vitum er að það er hrina í gangi og þá er ég að tala til áratuga og árhundraða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert