„Íslendingar geta eiginlega allt“

Mikið álag er á smitrakningarteyminu.
Mikið álag er á smitrakningarteyminu. Ljósmynd/Lögreglan

„Við erum að reyna að auka afköstin og erum að fjölga í teyminu,“ segir Steinunn Bergs, hjúkrunarfræðingur hjá smitrakningarteyminu, í samtali við mbl.is en álagið á teyminu hefur aukist mikið síðustu daga vegna fjölgunar Covid-smita.

„Við reynum að hafa símtölin hnitmiðaðri – hraðari afgreiðslu. Fyrir vikið fær fólkið kannski styttra samtal sem er kannski ekki óska staða en við viljum frekar ná að hringja í alla,“ segir hún og bætir við að markmiðið sé að hringja í alla sem hafa greinst jákvæðir.

„Við forgangsröðum að hringja fyrst í þá sem greinst innanlands utan sóttkvíar. Til þess að ná að rekja þau sem fyrst og koma fólki í sóttkví sem þarf,“ segir hún.

Auka mannskap

Rauði krossinn hefur nú þegar verið smitrakningarteyminu innan handar og þá er til skoðunar að fá aðstoð frá Landsbjörg.

„Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auka mannskap svo fólk fái þetta símtal.“

Steinunn segir þó að teymið hafi enn góða yfirsýn og nái að hringja í alla, í síðasta lagi degi seinna.

Fólk undirbúi sig fyrir símtalið

Verið er að uppfæra kerfi smitrakningarteymisins en með uppfærslunni munu allir sem greinast jákvæðir fá hlekk með upplýsingum til að undirbúa sig fyrir símtalið.

„Þetta eru upplýsingar um hverjir þurfa að fara í sóttkví, hvernig við rekjum, og þú getur byrjað að skrá fólk í sóttkví,“ segir Steinunn.

„Við rekjum fólk allan daginn fyrir fyrstu einkenni, eða daginn fyrir sýnatöku ef þau eru einkennalaus. Allt þetta kemur fram í upplýsingunum þannig þau eru búin að kortleggja þessa daga sem eru undir þegar við hringjum,“ segir hún og nefnir að uppfærslan muni auka afköst teymisins gífurlega.

Fólk fari strax í sóttkví

Steinunn biðlar til fólks sem veit af jákvæðri niðurstöðu að hafa strax samband við sitt fólk sem þarf að fara í sóttkví og fara strax í sóttkví sjálft þar til fyrirmælin koma frá teyminu.

Teymið biðlar til fólks að fara strax í sóttkví ef …
Teymið biðlar til fólks að fara strax í sóttkví ef það fær jákvæða niðurstöðu. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Við vinnum hérna til allavega klukkan 10 á kvöldin við að hringja. Þeir sem út af standa og greinast degi seinna, þeir fá símtal seinna. Þess vegna er svo mikilvægt að þeir sem að fá jákvæða niðurstöðu láti sitt fólk vita. Það er svo mikill ávinningur þó það sé ekki nema einn sólarhringur að fólk fari strax í sóttkví.“

Finna fyrir hreyfanleika fólks í desember

Steinunn segir að fólk smitist út um allt og ekki sé um nein sérstök hópsmit. Þá finni teymið greinilega fyrir hreyfanleikanum á fólki í desember.

Eru margir sem hafa enga hugmynd um hvernig þau greindust?

„Já, það eru margir sem hafa ekki hugmynd um það. Maður finnur fyrir þessum hreyfanleika í samfélaginu, það eru jólaskemmtanir, jólaböll, jólahlaðborð – auðvitað er maður hræddur við svoleiðis.“

Hún segir aðdáunarvert hvað fólk taki vel í símtölin. „Maður finnur hvað fólk er þakklátt fyrir símtalið þó þetta geti verið stutt hjá okkur. Maður finnur bara samheldnina í þjóðfélaginu. Íslendingar geta eiginlega allt.“

mbl.is