Fór til Mexíkós um jólin til að biðja unnustunnar formlega

Ármann Bernharð Ingunnarson og unnustan Ilse Denisse Cervantes Alcantár.
Ármann Bernharð Ingunnarson og unnustan Ilse Denisse Cervantes Alcantár. Ljósmynd/Aðsend

Ármann Bernharð Ingunnarson, sviðslistamaður og kennaranemi, ákvað að skella sér til Mexíkós um jólin til þess að fá formlegt leyfi hjá tengdaforeldrum sínum til að biðja unnustu sinnar, Ilse Denisse Cervantes Alcantár.

„Ef ég vil fá að biðja hennar fyrir alvöru þá þarf ég fyrst að hitta tengdaforeldranna og í rauninni fá leyfi,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Ármann ákvað að biðja Ilse í ágúst og í framhaldinu hófst undirbúningur fyrir ferðina til Mexíkós en Ilse vildi fara um jólin. „Ég ákvað bara að slá til,“ segir Ármann og bætir við að hann hafi aldrei verið vestan megin Atlantshafsins.

50 klukkustunda ferðalag

Ferðalagið til Mexíkós tók um 50 klukkustundir en þau flugu fyrst til London, síðan til Parísar og þá Mexíkóborgar, höfuðborgar Mexíkós. Þau eru nú í sunnanverðri borginni hjá tengdamóður Ármanns.

Hann segir jólastemninguna svipaða í Mexíkó og á Íslandi. „Þetta snýst allt saman um fjölskylduna, hittast og borða saman,“ segir hann og bætir við að eðlilega sé þó enginn snjór.

„Það er þó fólk sem algjörlega missir sig í jólaskreytingum og þetta hús sem ég er í er engin undantekning,“ segir Ármann og bætir við að jólatréð heima hjá tengdamóður hans sé um þrír metrar á hæð og vel skreytt.

Borða afganga á jóladag

Ármann segir að jólahátíðin í Mexíkó sé mun styttri en hérlendis þar sem hátíðin einskorðist í raun við aðfangadag og jóladag.

Aðalhátíðin sé á aðfangadag, þá hittist fjölskyldan, borði saman og opni pakka líkt og hér. Á jóladag hittist fólk síðan aftur og klári matarafgangana.

Ármann segir að á heimili tengdamóðurinnar sé ekki hefðbundnasti mexíkóski jólamaturinn en í boði verður ravioli-pastaréttur, quiche, sem er eggjabaka með ætiþistlum, nautakjöt og jólaskinka.

Hefðbundinn jólamatur í Mexíkó sé bacalao a la vizcaína, þorskréttur með kartöflum, ólífum og tómatmarineringu, og romeritos, grænmetisréttur í brúnni baunakarrísósu.

„Ákveðið víðáttubrjálæði“

Nú þegar hefur Ármann skoðað sig um í Mexíkóborg og skoðað sólarpíramídann í Teotihuacán. Þá vonast parið eftir að komast til Acapulco-borgar og á ströndina við Cancún-borg áður en þau halda aftur til Íslands um miðjan janúar.

Ármann og Ilse við sólar-pýramídann.
Ármann og Ilse við sólar-pýramídann. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta land er rosalega stórt en það er gullfallegt. Fyrir Íslending eins og mig, að vera kominn á svona stórt svæði, gefur manni ákveðið víðáttubrjálæði,“ segir Ármann og nefnir sérstaklega að Mexíkóborg sé gríðarstór.

Hann segist ætla að bíða þar til jólin eru búin til að biðja um leyfið frá foreldrum unnustunnar.

„En ég hef átt góðar stundir með tengdamömmu minni og hef hitt fleiri fjölskyldumeðlimi og fengið tacos með þeim. Þetta er stór fjölskylda og maður þarf að hitta marga og dusta af menntaskólaspænskunni. Það er gott að hafa góða konu sér við hlið sem getur leiðrétt og hjálpað manni að muna orðin.“

mbl.is