Land heldur áfram að rísa við Öskju

Síðast gaus í Öskju árið 1961.
Síðast gaus í Öskju árið 1961. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Land hefur nú risið um tuttugu sentimetra við eldstöðina Öskju frá ágústmánuði samkvæmt síðustu mælingum sem bárust Veðurstofunni rétt fyrir jól. Skýrt merki er um að kvika sé að safnast þar undir þó að ekki sé víst að það endi með eldgosi á næstunni. Þetta segir Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, sér­fræðing­ur Veður­stof­unn­ar á sviði jarðskorpu­hreyf­inga.

Þensla hófst við eldstöðina um mánaðamót­in júlí-ág­úst en dregið hefur verulega úr hraðanum síðan þá. Sömuleiðis hefur skjálftavirkni minnkað.

Að sögn Benedikts er fyllsta ástæða til að fylgjast vel með stöðunni áfram en hann telur þó líklegt að fleiri fyrirboðar muni gera vart við sig í aðdraganda eldgoss, til að mynda aukin skjálftavirkni.

„Ef það kemur til eldgoss myndi það hafa mun meiri aðdraganda en þetta landris. Það væri allavega mjög óvanalegt ef svo væri ekki. En við eigum ekki von á því að neitt gerist alveg á næstunni.“

Engar mælingar fyrir hendi um landris frá síðasta gosi

Askja, sem er virk eldstöð, gaus alls átta sinnum á síðustu öld, þar af sjö sinnum á tímabilinu 1921 til 1929 en síðasta eldgos var árið 1961.

Að sögn Benedikts áttu gosin sér stað fyrir tíma mælinga og eru því engin gögn til um landris í aðdraganda þeirra. 

Hins vegar hófust hallamælingar snemma á sjöunda áratugnum sem benda til að landris hafi byrjað í kjölfar gossins sem varð árið 1961 og varði þenslan eitthvað fram á áttunda áratuginn. Hlé var gert á mælingum árið 1972 og því ekki vitað með vissu hvenær henni lauk. 

Síðan þá hefur land sigið við eldstöðina og var það ekki fyrr en í sumar að sú staða breyttist.

mbl.is