Fyrri reglur áfram í gildi

Víðir Reynisson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Lögreglan

Nýjar reglur um vinnusóttkví hafa enn ekki tekið gildi og verða fyrri reglur áfram í gildi næstu daga að sögn Víðis Reynissonar aðstoðaryfirlögregluþjóns. Gildistöku reglnanna var frestað vegna mistaka við undirbúning verkefnisins. 

„Núna fyrstu daga ársins verður þetta bara með sama hætti og fyrir áramót, það er að segja – fyrirtæki geta sótt um þetta og þetta fer í ferli hjá sóttvarnalækni sem gefur síðan út leiðbeiningar til fyrirtækjanna. Við erum að leita leiða til þess að gera þetta skilvirkara, það eru oft ekki margar hendur á bak við verkefnin og sama fólkið að sinna ýmsum málum, það er svona ástæðan fyrir því að við viljum gera þetta einfaldara. Við erum enn þá að vinna úr niðurstöðunum úr þessum umræðum sem fóru fram með viðeigandi aðilum á gamlársdag,“ segir Víðir í samtali við mbl.is. 

Fólk sammála um grunnatriðin 

Með vinnu­sótt­kvínni átti að ákveðnu leyti að færa ábyrgðina yfir á at­vinnu­rek­end­ur og er verið að gera þetta til þess að mæta þeirri stöðu sem nú er uppi hvað varðar fjölda þeirra sem eru „úr leik“.

„Við erum búin að stíga þetta skref með styttingu einangrunar í sjö daga og skýrum leiðbeiningum til fólks um að fara varlega næstu daga á eftir. Það er auðvitað verið að setja mikla ábyrgð á fólkið sem er að útskrifast,“ segir Víðir. 

Víðir segir að þeir aðilar sem hafi verið fengnir til fundar við almannavarnir á gamlársdag hafi komið að borðinu með mikilvæg sjónarmið:

„Við erum held ég orðin alveg sammála um þetta, það eru held ég allir sammála um að finna leið til þess að láta þetta gerast hraðar. Núna snýst þetta um, ef þetta fer að þyngjast hjá mörgum fyrirtækjum, að það sé hægt að afgreiða þetta hratt, helst samdægurs þegar það koma svona beiðnir inn. Það eru allir sammála um mikilvægið og grunnatriðin í þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert