Telur hjarðónæmi ólíklegt

Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við …
Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Magnús Gottfreðsson, pró­fess­or í smit­sjúk­dóm­um og yf­ir­lækn­ir á Land­spít­ala, segir margt jákvætt hafa komið fram á síðustu 12 mánuðum í samhengi við kórónuveirufaraldurinn þó svo að væntingar margra um hjarðónæmi í kjölfar bólusetninga hafi brugðist. Telur hann mikilvægt að árangur bólusetninga verði þó ekki afskrifaður en að samfélög þurfi jafnframt að búa sig undir að lifa með veirunni.

Rúmt ár er liðið frá því að fyrsta sending af bóluefni gegn Covid-19 kom til landsins. Síðan þá hafa tæplega 290 þúsund landsmenn þegið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni, og ríflega 91% landsmanna, 12 ára og eldri, hafa verið fullbólusettir.

„Þetta hefur verið rússíbanareið. Það voru náttúrulega mjög ánægjuleg og í raun stórkostleg tíðindi þegar að bóluefnin fóru í gegnum klínískar prófanir og voru samþykkt á þessum stutta tíma frá því að veirunni var fyrst lýst,“ segir Magnús spurður um þróunina síðustu mánuði í samhengi við faraldurinn og bólusetningar.

Bólusetningar haft mikið af segja

„Ég get ekki tekið undir með þeim sem hafa verið að halda því fram að bólusetningar hafi haft lítið að segja. Það er algjörlega fjarri öllu sanni. Það er ástæðan fyrir því að þjóðfélagið er jafn opið og raun ber vitni þrátt fyrir öll þessi smit,“ segir Magnús.

Bætir hann við að auk bólusetninga hafi einnig stórkostlegar framfarir átt sér stað í meðferð gegn Covid-19 síðustu 12 mánuðina. Til að mynda með tilkomu einstofna mótefna, sem við höfum nú þegar nýtt okkur hér á Íslandi, og þar að auki hefur þekking á notagildi lyfjagjafar með veirulyfjum sem stendur Covid-sjúklingum til boða aukist til muna.

Hugsanlegt að aðlaga þurfi bóluefnin

Þegar Ómíkron kom fyrst fram á sjónarsviðið voru miklar getgátur uppi um hversu mikla vörn bólusetningar myndu veita gegn þessu nýja afbrigði.

Hvað hafa nýjustu rannsóknir sagt til um þetta?

„Það lítur þannig út að bólusetningarnar, sérstaklega mRNA bóluefnin tvö, virðast veita góða vörn gegn alvarlegum sjúkdómi af völdum Ómíkron-afbrigðisins – um og yfir 70% vörn. Þannig það er lakari vörn en gegn fyrri afbrigðum en engu að síður mjög mikilvægt og skiptir sköpum. Ég held að hluti skýringarinnar á því að innlagnir séu fátíðari af völdum Ómíkron sé einmitt þessi. Margir eru núna að njóta góðs af því að þeir eru bólusettir og bólusetningin er að vernda þá gegn alvarlegum sjúkdómi þó hún verndi þá ekki fullkomlega gegn því að smitast.“

Magnús segir þó hugsanlegt að aðlaga þurfi bóluefnin enn frekar þegar fram í sækir enda séu bæði Delta- og Ómíkron-afbrigðið svokölluð flóttaafbrigði sem séu á flótta undan valþrýstingi þeirra mótefna sem bólusetningin kallar fram.

Hægt að koma á jafnvægi með bólusetningum

Er enn hægt að halda í þá von um að hjarðónæmi náist í samfélaginu með bólusetningum?

„Ég hef alltaf verið pínulítið efins um notkun þessa hugtaks í samhengi við kórónuveirusýkingar – hjarðónæmi. Við vitum að ónæmi sem myndast eftir sýkingu með öðrum kórónuveirum dvínar tiltölulega hratt, sem veldur því að fólk getur fengið sýkingar af sömu kórónuveiru endurtekið, þannig að þetta eru veirur sem eru landlægar og við losnum ekki við,“ segir Magnús.

Hann bætir við að á hinn bóginn telji hann hægt að ná meira jafnvægi og koma á eðlilegra ástandi í samfélaginu með útbreiddri bólusetningu. Nú sé fyrir höndum að ná til þess hóps sem situr eftir en um 10% landsmanna sem náð hafa 12 ára aldri hafa ekki þegið bólusetningu vegna ýmissa ástæðna.

Þykir þér líklegra að við séum að horfa fram á samfélag með veirunni frekar en að við náum að útrýma henni?

„Já ég held að það sé alveg löngu ljóst. Ég held að flestir hafi komist á þá skoðun fyrir nokkru síðan að það verði niðurstaðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert