Vanmat á tölum um nýgengi smita hjá óbólusettum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að túlka verði línuritið af varúð.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að túlka verði línuritið af varúð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hópur óbólusettra hér á landi er að öllum líkindum töluvert minni en notast er við í útreikningum línurits sem birt er á covid.is og sjá má hér að neðan. Það gerir það að verkum að töluvert vanmat er til staðar í tölum um nýgengi Covid-19 hjá óbólusettum fullorðnum, en nýgengið er í raun hærra en birt er. Þetta kemur fram í nýjum pistli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem birtist á covid.is.

Segir hann þetta gera það að verkum að línuritið þurfi að túlka af varúð.

Hér má sjá línuritið sem um ræðir. Hægt er að …
Hér má sjá línuritið sem um ræðir. Hægt er að finna það í betri upplausn, ásamt frekari tölfræði, neðst í fréttinni. covid.is

„Undanfarið hafa komið fram þær raddir að samkvæmt línuriti sem birt er á covid.is um nýgengi sjúkdómsins hjá börnum og fullorðnum eftir bólusetningastöðu, sé hægt að álykta sem svo að áhættan á COVID-19 sé meiri hjá fullorðnum sem eru tvíbólusettir en þeim sem eru óbólusettir,“ segir Þórólfur.

Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur spyr til að mynda þeirrar spurningar í grein í Morgunblaðinu í dag, hvort bólusetning minnki vörn gegn smiti.

Þórólfur segir að ekki sé óeðlilegt að komast að þessari niðurstöðu þegar einungis sé rýnt í tölurnar í línuritinu en samsetningu hópanna sem tölurnar byggi á.

Óvissa í skráningu bólusetningar annarra hópa

Rétt sé að benda á að hópur óbólusettra fullorðinna sem stuðst er við í línuritinu, sé mjög fjölbreytilegur hópur sem erfitt sé að skilgreina nákvæmlega. Í þessum hópi sé töluverður fjöldi sem skráður sé með búsetu er á landi en búi þó ekki hér. Á þetta hafi margoft verið bent, sérstaklega þegar rætt hefur verið um hvernig ná eigi til óbólusettra hér á landi.

„Þetta þýðir því, að hópur óbólusettra er að líkindum verulega minni en notast er við í útreikninum línuritsins. Þannig er töluvert vanmat til staðar í tölum um nýgengi hjá óbólusettum fullorðnum og nýgengið því í raun hærra en birt er. Á sama hátt er óvissa í skráningu bólusetningu annarra hópa eins og þeirra sem bólusettir hafa verið erlendis en búa hér og þeirra sem bólusettir hafa verið hér á landi en búa erlendis. Öll þessi óvissa gerir það að verkum að línuritið þarf að túlka af varúð.“

Línuritið segir ekki til um vernd gegn alvarlegum veikindum

Megin skilaboðin í línuritinu séu hins vegar þau að bólusetning, sérstaklega einn eða tveir skammtar, verndi ekki vel gegn smiti af völdum Ómíkron-afbrigðisins. Það sé í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna eins og margoft hafi verið bent á. 

„Það sem að línuritið segir hins vegar ekki, er hver vernd bólusetningar er gegn alvarlegum veikindum af völdum Ómíkron-afbrigðisins. Erlendar rannsóknir og reynsla okkar á Íslandi sýnir einmitt að verndin er fyrst og fremst gegn alvarlegum veikindum af völdum afbrigðisins og sérstaklega eftir örvunarskammtinn. Verndin gegn smiti er hins vegar góð þegar um er að ræða delta afbrigðið.

Þessi vitneskja á að vera öllum hvatning til að mæta í bólusetningu og þiggja örvunarskammt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert