Ara sagt upp

Ari Edwald.
Ari Edwald. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ara Edwald, framkvæmdastjóra Íseyjar útflutnings, dótturfélags Auðhumlu, hefur verið sagt upp störfum. Uppsögnin tók strax gildi.

Frá þessu greinir stjórn Íseyjar í tölvupósti sem sendur var til félagsmanna samvinnufélagsins Auðhumlu í kvöld, en Auðhumla á 80% hlut í Mjólkursamsölunni.

„Í síðustu viku birtist í fjölmiðlum umfjöllun þar sem framkvæmdastjóri ÍSEYJAR útflutnings, auk þriggja annarra nafngreindra aðila, er ásakaður um þátttöku í ósæmilegri kynferðislegri háttsemi gagnvart ungri konu í lok árs 2020,“ segir í tölvupóstinum.

Í kjölfarið hafi framkvæmdastjórinn farið í tímabundið leyfi frá störfum.

Stjórnin fundað oft um málið

„Ónákvæmar upplýsingar um framangreint bárust stjórn í lok október 2021. Málið var strax tekið alvarlega vegna þess möguleika að upplýsingarnar væru réttar, og hefur stjórn félagsins fundað oft um málið, bæði með framkvæmdastjóra og án hans. Málið var enn til meðferðar í stjórn í síðustu viku þegar vatnaskilin urðu. Eins og allir gera sér grein fyrir eru mál af þessum toga bæði alvarleg og erfið,“ segir enn fremur í tölvupóstinum.

„Þær ásakanir sem nú eru komnar fram á hendur framkvæmdastjóra eru með þeim hætti að stjórn félagsins taldi sér skylt, að vel athuguðu máli, að segja upp ráðningarsamningnum við hann, með áskilnaði til riftunar síðar ef tilefni gefst til, með hliðsjón af hagsmunum félagsins, starfsfólks og viðskiptamönnum þess, og ekki síður meintum þolanda.“

Undir þetta skrifa þau Elín Margrét Stefánsdóttir stjórnarformaður og meðstjórnendurnir Ágúst Guðjónsson og Sigurjón Rúnar Rafnsson.

Sumarbústaðarferð

Ari er einn þeirra manna sem hin 24 ára gamla Vítal­ía Lazareva nafn­greindi á In­sta­gram síðla árs 2021, þar sem hún tjáði sig um kyn­ferðisof­beldi sem hún kvaðst hafa verið beitt í sum­ar­bú­staðarferð í des­em­ber 2020.

Ný­lega kom Vítal­ía fram í viðtali í hlaðvarpsþætt­in­um Eig­in kon­ur þar sem hún lýsti at­b­urðinum án þess þó að nafn­greina menn­ina sem hún sak­ar um að hafa brotið á sér. Ekki er ljóst hvað Ari er sakaður um en í færslu sem Vítal­ía birti á In­sta­gram í októ­ber er Ari nefnd­ur ásamt þrem­ur öðrum mönn­um.

Í þætt­in­um lýs­ir hún því hvernig hóp­ur manna mun hafa brotið kyn­ferðis­lega á henni í heit­um potti í sum­ar­bú­staðarferðinni. Á þeim tíma hafi hún verið í ástar­sam­bandi með 48 ára göml­um kvænt­um manni. All­ir þeir sem hún sak­ar um að hafa brotið á sér í pott­in­um munu vera vin­ir mannsins.

mbl.is