Peningurinn í spítalann frekar en PCR-próf?

Ragnar segir yfirstandandi bylgju munu dynja á okkur sama hvað.
Ragnar segir yfirstandandi bylgju munu dynja á okkur sama hvað. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

„Ég fór að velta fyrir mér hvernig við ætlum að stíga næstu skref í baráttunni við þennan faraldur,“ segir Ragn­ar Freyr Ingvars­son, sér­fræðing­ur í lyf- og gigt­ar­lækn­ing­um og fyrr­ver­andi yf­ir­maður Covid-göngu­deild­ar Land­spíta­lans.

Fyrr í dag birti hann pistil þar sem hann velti upp þeirri spurningu hvort nauðsynlegt væri að halda áfram að framkvæma jafn mörg PCR-próf og hefur verið gert.

„Þessi aðferðafræði sem við höfum beitt, hún hefur virkað mjög vel hingað til, en mér finnst það vera nokkuð ljóst að sú aðferðafræði sem við erum að beita – hún er ekki að ná þeim markmiðum sem við náðum áður og þá veltir maður fyrir sér hvort að maður eigi að nálgast vandann á einhvern annan hátt,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrverandi yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans.
Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrverandi yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans.

Faraldurinn útbreiddari en fólk heldur

Ragnar bendir á að faraldurinn sé mun útbreiddari en við höldum enda greinist svo margir einkennalitlir eða einkennalausir. Því hljóti að vera margir smitaðir sem fari ekki í sýnatöku. Faraldurinn muni þannig halda áfram að dreifa sér sama hvað við mælum.

Auk þess kosti núverandi aðferð ofboðslega mikla peninga. Ragnar hefur varlega áætlað að PCR-prófið kosti á bilinu 7.000 til 15.000 krónur. Miðað við fjölda sýna er því kostnaðurinn um það bil 50 til 100 milljónir á dag.

Beini sjónum að áhættuhópum

„Það er ansi mikill peningur ef aðferðin síðan skilar ekki einu sinni árangri og þá fór ég að velta fyrir mér, er möguleiki að ná árangri með einhverjum öðrum aðferðum?“ segir Ragnar.

Ragnar bætir við að auðvitað verðum við að beina sjónum að þeim sem verst fara út úr Covid-19. Það séu þeir sem eru aldraðir, með undirliggjandi sjúkdóma og ónæmisbældir, t.d. vegna krabbameinsmeðferðar. Þannig væri kannski ráð að beina sjónum okkar að því að skima þá einstaklinga þegar þeir fá einkenni.

Hinir beiti þá þeirri aðferð, sem hefur hingað til verið beitt í baráttunni við öndunarfærasýkingar, og haldi sig til hlés séu þeir með einkenni.

Spurður hvernig komi megi þá í veg fyrir að smit berist í áhættuhópa svarar Ragnar að engin trygging sé fyrir því að þessi aðferð sem nú er beitt verndi áhættuhópa.

„Við teljum að það séu margir þarna úti sem eru að ganga um einkennalitlir eða einkennalausir. Þessi aðferðafræði er ekki að vernda þann hóp, ef við náum þeim ekki þá eru þau bara þarna úti og smita,“ segir hann.

„Við vitum hverjir eru ekki í neinni sérstakri áhættu að veikjast og það eru einmitt þeir sem eru ungir, eru bólusettir og eru ekki með undirliggjandi sjúkdóm. Kannski þarf ekki að skima þá, kannski ættu þeir bara að nota þessar gamalreyndu aðferðir sem hafa gagnast okkur vel hingað til og það er að halda sig til hlés sé maður með hita, hálssærindi og hósta. Þá sé maður heima, maður fari ekki í vinnuna veikur og verði heima hjá sér í einn tvo daga eftir að maður er að jafna sig.“

Verði að styrkja innviðina til að takast á við bylgjuna

Ragnar segir yfirstandandi bylgju munu dynja á okkur sama hvað og að bylgjan, sem verði sú stærsta hingað til, muni hafa í för með sér fleiri innlagnir á sjúkrahúsið með tilheyrandi álagi á legudeildir og gjörgæsluna.

„Ég held að við ættum að beina sjónum okkur að því að styrkja innviði okkar til þess að takast á við þessa bylgju því að við þurfum hjúkrunarfræðinga á gólfið, við þurfum sjúkraliða og aðstoðarfólk og fleira lækna. Þannig getum við tekist á við þessa bylgju því ég tel hana vera óumflýjanlega,“ segir Ragnar en í pistli sínum velti hann fyrir sér hvort meira vit væri í því að beina fjármagninu sem fer í PCR-prófin inn á spítalann.

„Ég er ekki að segja að við eigum að gera þetta svona. Það sem ég er að gera er raun og veru að skapa umræðu um það. Ég er ekki að fullyrða að þetta sé rétta leiðin, en ef við ræðum ekki þessa hluti á einhverjum tímapunkti þá mun þessi bylgja skella á okkur með miklum þunga og við erum ekki búin undir hana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert