Kröpp og djúp lægð á leiðinni

Gul veðurviðvörun er í gildi.
Gul veðurviðvörun er í gildi. mbl.is/RAX

„Gengur á með suðvestanhvassviðri eða -stormi og éljagangi á vestanverðu landinu fram að hádegi, en dregur síðan talsvert úr vindi og éljum. Hægara og bjart með köflum eystra,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vakt hjá Veðurstofu Íslands í morgun.

Skellur á í fyrramálið

Þá er bent á að gul veðurviðvörun sé í gildi fram að hádegi: „Skyggni og færð getur spillst fljótt í éljunum og því eru gular veðurviðvaranir í gildi til hádegis, eða þar um bil.

Hægari suðvestlæg átt og úrkomulítið í kvöld. Langt suðvestur í hafi er kröpp og dýpkandi lægð, sem hreyfist allhratt norður á bóginn, en skil hennar fara inn á suðvestanvert landið í fyrramálið. Fer þá að snjóa og mun snjóa í öllum landshlutum einhvern tíma á morgun. Seinna um daginn hlýnar talsvert sunnan og vestan til og fer að rigna.“

Þá segir að þó að ekki sé búist við illvirði í neinum landshluta á morgum er þeim, sem hyggja á ferðlög, bent á að fylgjast vel með veðurspám og færð á vegum.

mbl.is