Mikið um ölvun og hávaða í heimahúsum

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls voru 90 mál skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt og voru þau flest tengd ölvun og hávaða í heimahúsum. Þrír voru vistaðir í fangageymslu lögreglu.

Tilkynnt var um innbrot í bifreið í miðbæ Reykjavíkur á öðrum tímanum í nótt. Búið var að brjóta rúðu og stela verðmætum.

Um hálffjögurleytið var maður í annarlegu ástandi handtekinn í hverfi 108. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Tilkynnt var um þjófnað í verslun í Breiðholti um hálftíuleytið í gærkvöldi. Maður var stöðvaður þegar hann var að yfirgefa verslunina með vörur sem hann hafði ekki greitt fyrir. Vettvangsskýrsla var rituð.

Um klukkan ellefu var bifreið stöðvuð í Kópavogi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur yfir gatnamót gegn rauðu ljósi og akstur án réttinda.

Laust fyrir klukkan tíu í gærkvöldi var tilkynnt um umferðaróhapp í Mosfellsbæ. Bifreið var ekið á ljósastaur en ekki urðu slys á fólki. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Með ónæði í Árbænum

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn þar sem hann var með ónæði í Árbænum skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt. Hann var vistaður í fangageymslu.

Í Hafnarfirði var bifreið stöðvuð upp úr klukkan hálfeitt í nótt. Farþegi var handtekinn grunaður um vörslu/sölu fíkniefna, brot á vopnalögum og fleira.

Afskipti voru höfð af manni á heimili í Hafnarfirði skömmu fyrir klukkan 21 í gærkvöldi. Hann er grunaður um vörslu og neyslu fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert