Gimsteinn reyndist algjör gimsteinn

Hrúturinn Gimsteinn. Undan honum verður vonandi alið kyn fjár sem …
Hrúturinn Gimsteinn. Undan honum verður vonandi alið kyn fjár sem er ónæmt gegn riðu. Ljósmynd/RML

Steinn Björnsson, bóndi á bænum Þernunesi í Reyðarfirði, er eigandi frægasta hrútar landsins. Arfgerð fannst nýverið í hrútnum sem er verndandi gegn riðu og ef tekst að ala undan honum og dreifa arfgerðinni víðar í íslenskan sauðfjárstofn má gera hann ónæman gegn riðu með öllu. 

Arfgerðin fannst í hrútnum Gimsteini og fimm ám á bæ hans; Njálu-Brennu, Njálu-Sögu, Hallgerði, Katrínu og Svandísi. Tvær síðastnefndu heita í höfuðið á Katrínu Jakobsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur, forsætisráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra úr Vinstri grænum.

Steinn er vongóður um að fleira fé á bæ hans greinist með arfgerðina góðu. 

„Já, ég reikna nú með því. Það gæti verið að þetta sé í fleiri ám þarna og gæti verið í fleiri hrútum. Þannig við þurfum að taka fleiri sýni,“ segir Steinn í samtali við mbl.is. 

Og Steinn hefur lög að mæla. Formaður deildar sauðfjárbænda í Bændasamtökunum sagði við mbl.is í morgun að ráðist yrði í víðtæka skimun til þess að sjá hvort arfgerðin góða finnist víðar hér á landi. 

Dagar riðu hér á landi gætu orðið taldir á næstu …
Dagar riðu hér á landi gætu orðið taldir á næstu árum og áratugum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vatnaskil í landbúnaði

Spurður að því hvaða þýðingu arfgerðarfundurinn hefði fyrir sauðfjárbændur landsins segir Steinn alveg ljóst að miklu muni skipta að ekki þurfi að skera niður sauðfjárstofna þar sem riða kemur upp. 

„Nú ætti smám saman að vera hægt að rækta gripi og stofna sem geta ekki fengið riðu. Það hefur auðvitað verið eina leiðin undanfarna áratugi að skera niður stofnana þar sem riðan hefur komið upp.“

Eins og kom fram á blaðamanna­fundi Ráðgjaf­armiðstöðvar land­búnaðar­ins og Til­rauna­stöðvar Há­skóla Íslands í meina­fræði að Keld­um fyr­ir há­degi í dag, eru miklar vonir bundnar við fundinn. 

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, óskaði viðstöddum til hamingju og sagði þetta algjör vatnaskil í íslenskum landbúnaði. 

Karólína Elísabetardóttir sauðfjárbóndi sagði málið skipta sköpum fyrir sig og kollega sína. Hún minntist á mikilvægi þess að nú þyrfti ekki lengur að skera niður heilu stofnana vegna riðu og því gætu stofnar haldið sérstöðu sinni sem annars myndi glatast með niðurskurði. 

Sigurborg tók undir það og bætti við að arfgerðarafundurinn gerði að verkum að heilsa dýranna myndi stórbatna. Stærsta gæfuskrefið væri að nú þyrfti sauðfé ekki lengur að þjást illa af reglulegum og ólæknandi sjúkdómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert