Bælingarmeðferðir verði bannaðar

Frá Gleðigöngunni árið 2019.
Frá Gleðigöngunni árið 2019. mbl.is/Árni Sæberg

Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi um að banna svokallaðar bælingarmeðferðir með lögum. Verði það að veruleika mega þeir sem standa að slíkum meðferðum eða fá fólk í þær eiga von á allt að fimm ára fangelsi. Meðferðirnar hafa verið áberandi hjá trúarhópum og er ætlað að bæla niður kynhneigð fólks.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, og ellefu aðrir þingmenn Viðreisnar, Pírata, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Flokks fólksins, standa á bak við frumvarpið.

„Svona meðferðir, sem í megin­atriðum byggja á því að það sé hægt að „lækna“ náttúrulega kynhneigð og kynvitund fólks, eru langt frá því að vera studdar vísindalegum rökum og eru einfaldlega siðferðilega rangar, hvernig sem á það er litið,“ segir Hanna Katrín við Fréttablaðið.

Í Kanada, Sviss, Brasilíu, Ekvador, á Möltu og Indlandi eru bælingarmeðferðir bannaðar með öllu. Í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna, Albaníu, Úrúgvæ, Argentínu og víðar er heilbrigðisstarfsfólki bannað að framkvæma eða taka þátt í bælingarmeðferðum, segir í frumvarpinu.

Í Þýskalandi er bælingarmeðferð á börnum bönnuð og jafnframt á fullorðnum ef nauðung, blekkingum eða þrýstingi hefur verið beitt. Í Noregi, Danmörku, Finnlandi, Bretlandi, Frakklandi, Nýja-Sjálandi, Ísrael og á Írlandi er til skoðunar að fylgja þessu fordæmi og banna þessar meðferðir.

Hanna Katrín Friðriksson.
Hanna Katrín Friðriksson. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert