Hyggst létta á sóttkví – afléttingar í kortunum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur nú lokahönd á tillögur varðandi breytingar á sóttkví vegna kórónuveirufaraldursins en hann telur rétt að létta á henni og einfalda. Hann segir enn fremur góða ástæðu nú til að fara í afléttingar á sóttvarnaaðgerðum en tíu manna samkomutakmarkanir gilda til 2. febrúar.

„Við erum að horfa upp á þetta vægara afbrigði veirunnar og höfum beðið eftir upplýsingum um innlagnir frá Landspítala. Nú höfum við þær og þar sést að innlögnum hefur fækkað á síðastliðnum vikum og mánuðum, sem má þakka ómíkron-afbrigðinu og útbreiddum bólusetningum,“ segir Þórólfur við mbl.is.

„Þegar við sjáum þessa stöðu þá er alveg góð ástæða til að fara í afléttingar. Við þurfum að byggja það á gögnum, nú höfum við gögnin og þá getum við farið af stað,“ bætir hann við.

Þórólfur vill ekki fara nákvæmlega út í hvaða breytingar verða gerðar á sóttkví en segir núgildandi reglur íþyngjandi fyrir ýmsa starfsemi og brýnt sé að einfalda reglurnar. 

„Þá mun sýnatökum fækka sjálfkrafa samhliða því og þetta mun vafalaust leiða til þess að smitum fjölgar og við höfum ekki jafn góða yfirsýn. Við munum þurfa að fylgjast enn betur með þeim sem leggjast inn á spítala,“ segir Þórólfur og bætir við að í framhaldinu verði hægt að fara í samfélagslegar afléttingar:

„Stjórnvöld, í samvinnu við sóttvarnalækni, þurfa að gera áætlun um hvernig hægt verði að aflétta í skrefum því að mínu mati megum við ekki fara of hratt í þetta.“

Sóttvarnalæknir er ekki sammála Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem vill aflétta öllum takmörkunum innanlands.

„Það væri ekki skynsamlegt að gera það og þurfa svo að bakka. Þetta er auðvitað sjónarmið en ég held að það væri skynsamlegra að gera þetta í skrefum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert