Fíkniefnapróf sem veita falskt öryggi

Fíkniefnið spice var upphaflega markaðssett sem eins konar reykelsi.
Fíkniefnið spice var upphaflega markaðssett sem eins konar reykelsi. Af vef Wikipedia

K2-fíkniefnapróf sem eru í sölu hér á landi og er ætlað að greina efnið spice í þvagi eru ólíkleg til að virka á íslenskum markaði. Þetta segir Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur og verkefnastjóri á rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Spice var í byrjun markaðssett sem reykelsi

Spice er tiltölulega nýtt fíkniefni á markaðnum en neysla á því hefur aukist verulega á síðastliðnum árum. Það er einna vinsælast meðal fanga og ungmenna en dæmi eru um að börn niður í 12 ára aldur séu að neyta efnisins hér á landi.

Efninu svipar til kannabisefna í útliti en er í raun verksmiðjuframleitt og því mun hættulegra. Spurður segir Adam efnið upphaflega hafa verið selt í formi þurrkaðra plöntuleifa sem vættar höfðu verið upp úr lausn sem innihélt spice-efnið JWH-018 og markaðssett sem eins konar reykelsi.

„Þetta var svo selt í glansandi umbúðum sem voru merktar ýmist spice eða K2. Á umbúðunum var einnig tekið fram að efnið væri ekki ætlað til neyslu.“

Ekki leið þó á löngu þar til fólk uppgötvaði að það kæmist í vímu af því að reykja efnið og fór að misnota það. Lengi vel var sú víma svo kölluð „lögleg víma“ enda efnið hvergi á lista yfir ólögleg ávana- og fíkniefni, að sögn Adams.

„Svo um leið og JWH-018 var gert ólöglegt var efnaformúlunni breytt smávægilega og eltingarleikurinn endalausi hófst.“

Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur og verkefnastjóri á rannsóknastofu í lyfja- …
Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur og verkefnastjóri á rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Neysla ungmenna á efninu mjög alvarlegt mál

Í raun sé spice nefnilega regnhlífarhugtak yfir fleiri en 250 mismunandi virk efni sem hægt er að skipta í mismunandi undirflokka eftir helstu byggingarefnum þeirra.

„Síðastliðin tvö ár höfum við helst séð fjögur efni í umferð hér á landi. Önnur efni koma og fara og því er erfitt að spá fyrir um það hvaða efni nær vinsældum næst. Neytendur vita þó sjaldan hvaða efna þeir eru raunverulega að neyta. Það geta jafnvel verið blöndur af tveimur mismunandi efnum.“

Erfitt er að svara því hve umfangsmikill spice-vandinn er á Íslandi í dag, segir Adam inntur eftir því. Efnin sem komast í umferð séu breytileg og því sé mikilvægt að mæliaðferðir eftirlitsaðlia séu í samræmi við það.

„Ég held að starfsfólk hjá Fangelsismálastofnun og í fangelsunum verði mest vart við vandann. En svo heyrir maður á umræðunni að þetta sé að aukast í vinsældum hjá yngri kynslóðinni, sem er mjög alvarlegt mál þar sem áhrif nýjustu efnanna á mannfólk eru lítið sem ekkert þekkt. Neytendur eru því tilraunadýr fyrir framleiðendur efnanna.“

Segir spice mögulega geta dregið fólk til dauða

Rannsóknir benda til þess að spice-efnin séu ávanabindandi. Þá segir Adam almennar lýsingar fólks sem hefur neytt efnanna einnig benda til þess að áhrifin af neyslu þeirra séu sterkari en af neyslu kannabisefna.

„Alvarlegustu áhrifin eru tímabundið hreyfingarleysi, öndunarerfiðleikar, hjartsláttatruflanir, flog og kvíðaköst.“

Þar sem mörg efnanna séu svo ný og þau hafi lítið verið rannsökuð séu eitrunarmörk flest þeirra lítið þekkt. Það gildi um flest önnur hefðbundin fíkniefni, að sögn Adams.

„Efnin hafa þó sannarlega mælst í málum þar sem einstaklingar deyja skyndilega eftir neyslu. Þá er það undir réttarlækni sem framkvæmir krufningu komið hvernig sú niðurstaða er túlkuð.“

Spurður segir Adam Spice-efnin geta verið banvæn og að minnst eitt andlát hafi orðið hér á landi þar sem mikið magn af efnunum fannst í líkama þess látna við krufningu.

Fíkniefnapróf sem ætlað er að greina spice-efni í þvagi.
Fíkniefnapróf sem ætlað er að greina spice-efni í þvagi. Samsett mynd

Fíkniefnapróf til sölu sem virka illa eða alls ekki

Hér á landi eru tvö fyrirtæki sem flytja inn K2-fíkniefnapróf en það er lyfjafyrirtækið Alvogen og apótekið Lyfjaver. Adam segir prófin virka mjög vel fyrir ákveðin spice-efni en að þau virki illa eða jafnvel alls ekki fyrir þau spice-efni sem séu helst í umferð á Íslandi í dag.

„Það þýðir að fólk sem notar þessi próf til að mæla barnið sitt eða einstakling undir eftirliti mun að öllum líkindum fá falsneikvæðar niðurstöður þrátt fyrir að þvagsýnið myndi innihalda þessi efni sem eru í umferð í dag.“

Jafnvel þótt áreiðanlegri próf kæmu á íslenskan markað ættu sérfræðingar erfitt með að treysta blint á þau þar sem þetta sé svo síbreytilegur flokkur, að sögn Adams.

„Það er ekki víst að próf sem virki á efnin í dag muni virka á efnin eftir eitt eða fimm ár.“

Lyfjastofnun hefur verið gert viðvart um stöðuna.
Lyfjastofnun hefur verið gert viðvart um stöðuna. Ljósmynd/Lyfjastofnun

Skortur á þekkingu á efnunum vandamálið

Inntur eftir því segist Adam ekki halda að þeir sem flytji prófin inn til landsins og selji geri það viljandi á fölskum forsendum. Líklegra sé að þá skorti þekkingu á efnaflokknum.

„Ég held að margir haldi að spice sé eitt efni og því ætti þvagpróf merkt spice að virka fyrir spice, alveg eins og amfetamínpróf virka fyrir amfetamín en þetta er bara miklu flóknara en það. Því finnst mér mikilvægt að framleiðendur og seljendur á þessu prófi kynni sér flokkinn vel.“

Þá segir hann ekki síður mikilvægt að almenningur átti sig á því að próf merkt „Spice/K2“ virki aðeins á ákveðna nýmyndaða kannabínóíða en ekki alla og að starfsfólk apóteka, þar sem þessi próf eru seld, fái viðeigandi þjálfun til að geta t.d. veitt áhyggjufullum foreldrum réttar upplýsingar um hvaða efni prófin mæla og leiðbeiningar um notkun þeirra.

Adam segist hafa gert Lyfjastofnun og þeim sem flytja K2-prófin inn til landsins viðvart um stöðu mála og virðast ábendingarnar hafa skilað sér þar sem búið var að fjarlægja prófin úr netverslunum Alvogens og Lyfjavers þegar þessi frétt er birt.

„Ég fékk einnig viðbrögð frá Lyfjastofnun, sem ætlaði að skoða hvaða heimild þau hefðu til að aðhafast í þessu máli. Þetta virðist þó ekki hafa skilað sér alla leið því prófin eru enn til sölu í netverslun Lyfju og í hillunum í bæði Lyf og heilsu og Lyfju.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert