Aðgerðir við Ölfusvatnsvík gengið vonum framar

Aðgerðir við Ölfusvatnsvík hófust snemma í morgun.
Aðgerðir við Ölfusvatnsvík hófust snemma í morgun. mbl.is/Óttar

Aðgerðir vegna flugslyssins við Ölfusvatnsvík hafa gengið vonum framar seinni part dags, að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi. 

Köfurum hefur nú tekist að færa tvo hinna látnu á yfirborðið og er nú verið að flytja þá til Reykjavíkur. Verið er að staðsetja lík þeirra manna sem eftir liggja en stefnan er sett á að koma þeim á land í kvöld. 

Aðgerðir við Þingvallavatn hófust snemma í morgun og voru fyrstu menn mættir upp úr klukkan sjö. Um 60 manns eru á vettvangi að aðstoða og hefur kuldinn ekki komið að sök.

„Menn eru vel búnir og það er vel búið að okkur í upphituðum tjöldum og upphituðum bílum. Það er matur hér og allt til alls. Það er ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Oddur.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. mbl.is/Óttar

Gengið vonum framar

Ríflega 20 kafarar taka þátt í aðgerðinni sem nú stendur yfir og hófust fyrstu kafanir rétt fyrir klukkan tvö í dag.

Um níuleytið þótti ólíklegt að hægt væri að hefja aðgerðir í dag þar sem ísröst lokaði fyrir siglingu með pramma út á vatnið.

Þegar líða tók á daginn byrjaði ísinn þó að brotna upp og færast upp að landi. Gátu þá leitarmenn sent rörabáta út á vatnið til að greiða leiðina. Hefur þeim verið siglt með reglulegum hætti síðan þá til að halda leiðinni opinni. 

Oddur segir störf kafaranna hafa gengið vonum framar og í raun allt eftir planinu sem búið var að leggja upp fyrir daginn. 

Hann kveðst ekki vera með tölu yfir hversu margir kafarar hafa farið ofan í vatnið í dag en segir nægan mannskap til staðar til að ljúka verkinu í kvöld, ef allt gengur að óskum.

Hífa flugvélarflakið á morgun

Haldið verður áfram í dag á meðan birta leyfir en mætt verður snemma í fyrramálið til að halda aðgerðinni áfram. Þá er stefnan sett á að hífa flugvélarflakið upp af botni vatnsins.

Kann að vera að flakið verði tekið í sundur áður en það verður flutt af vettvangi.

Rannsókn á flugslysinu er nú í fullum gangi. Að sögn Odds er mögulegt að hlutar vélarinnar verði sendir utan í ítarlegri rannsókn en ekki verða gefnar frekari upplýsingar um gang málsins að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert