Siðanefnd Háskólans segir af sér

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands.

Siðanefnd Háskóla Íslands hefur sagt af sér eftir að Jón Atli Benediktsson Háskólarektor greindi frá þeim skilningi, að hún hefði enga lögsögu í mál Bergsveins Birgissonar rithöfundar gegn dr. Ásgeiri Jónssyni Seðlabankastjóra. Siðanefndin hafði litið svo að hún hefði eitthvað til þeirra mála að leggja þar sem Seðlabankastjóri væri í virku ráðningarsambandi við Háskólann (HÍ), þó hann væri í langtíma launalausu leyfi þaðan. Þegar Háskólarektor komst að öndverðri niðurstöður taldi hún sér ekki sætt lengur.

Siðanefndin samþykkti afsögnina samhljóða á fundi hinn 7. febrúar síðastliðinn og sendi þremur dögum síðar frá sér yfirlýsingu um hana til skipunaraðila í Háskólanum, en einnig var hún kynnt málsaðilum, svo þeir gætu kynnt sér frekari afdrif málsins.

Formaður siðanefndar HÍ er skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors, en Félag háskólakennara og Félag prófessora skipa hvort um sig einn nefndarmann. Í nefndinni sátu þau Skúli Skúlason formaður, Henry Alexander Henryson og Sólveig Anna Bóasdóttir. Yfirlýsingin, sem Morgunblaðið hefur séð, hefur ekki verið birt opinberlega.

Spurning um lögsögu nefndarinnar

Þegar siðanefnd tók málið upp á sínum tíma óskaði Seðlabankastjóri eftir frávísun málsins, m.a. á þeirri forsendu að nefndin hefði ekki yfir sér að segja. Nefndin féllst ekki á það, þar sem ráðningarsamband hans við HÍ væri enn til staðar, hvað sem liði launalausu leyfi hans til langtíma meðan hann gegndi embætti Seðlabankastjóra.

Háskólarektor var ekki sammála þessum skilningi og rökstuddi það skriflega. Þeir sem rektor hefði veitt launalaust leyfi á grundvelli verklagsreglna HÍ til þess að taka að sér launuð störf annars staðar væru ekki lengur undir sinni stjórn eða boðvaldi og hefðu ekki þær skyldur, sem þeir hefðu meðan þeir störfuðu við Háskólann. Segja mætti að ráðningarsambandið við HÍ legðist í dvala við leyfisveitinguna, en raknaði úr rotinu þegar störfum á hinum vettvangnum lyki og viðkomandi kysi að snúa aftur til fyrri starfa hjá HÍ.

Í verklagsreglum Háskólans er kveðið á um að verða megi við óskum starfsmanna um að hverfa til annara tímabundinna starfa í launalausu leyfi, sem þá haldi rétti til þess að snúa aftur í fyrra starf að því loknu.

Mest hefur borið á slíkum leyfum vegna ýmissa embættisstarfa utan HÍ, bæði kjörinna og skipaðra. Auk Ásgeirs má nú helst nefna Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og Róbert Spanó, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu. Við blasir að aðfinnslur um embættisstörf þeirra eða skrif í eigin nafni ættu hvorki erindi til Háskólarektors né siðanefndar HÍ.

Bergsveinn Birgisson sakaði Ásgeir um það í desember, að hafa í bók sinni Eyjan hans Ingólfs um landnám Íslands greint frá hugmyndum sem væru sínar án þess að tilgreina það sérstaklega og skaut málinu m.a. til siðanefndar Háskólans. Eftir nokkra umþóttun tók nefndin það upp, þar sem Ásgeir væri í leyfi sem dósent við hagfræðisvið félagsvísindadeildar HÍ þó hann starfaði á öðrum vettvangi. Því var mótmælt af hálfu Ásgeirs, sem taldi málið ekki heyra undir hana, og sagði að ágreining þeirra bæri fremur að útkljá fyrir dómstólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert