Heiti Garðastrætis verði breytt í Kænugarðsstræti

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, hyggst leggja fram tillögu í skipulagsráði á morgun þar sem nafnanefnd er falið að breyta heiti Garðastrætis í Kænugarðsstræti. Frá þessu greindi Eyþór á Facebook í dag.

Með þessu væri verið að minna á tengsl Íslands og Úkraínu en Kiev, höfuðborgin hefur löngum verið kölluð Kænugarður,“ skrifar Eyþór í færslunni.

Sem kunnugt er stendur rússneska sendiráðið við Garðastræti.

Segja borgina eiga að taka vel á móti flóttafólki

Færsluna birti Eyþór í kjölfar fundar sem borgarstjórn Reykjavíkur hélt í dag en á fundinum voru m.a. málefni Úkraínu til umræðu.

Í bókun Sjálfstæðisflokksins við þeirri umræðu segir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fordæmi innrás Rússlands í Úkraínu enda sé hún „á engan hátt réttlætanleg“.

Telur Sjálfstæðisflokkurinn Reykjavíkurborg þurfa að gera sitt til að taka vel á móti fólki á flótta frá Úkraínu en samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna gætu nú um hálf milljón Úkraínumanna verið á flótta undan stríðsátökum í landinu.

Sameinuðu Þjóðirnar telja um hálfa milljón manns vera á flótta …
Sameinuðu Þjóðirnar telja um hálfa milljón manns vera á flótta undan stríðsátökunum í Úkraínu. AFP

Telja brýnt að flýta orkuskiptum á Íslandi

Þá hyggjast fulltrúar Sjálfstæðisflokks í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggja til á næsta fundi hennar að kannaðir verði til hlýtar þeir möguleikar að nýta gufuafl til frekari raforkuframleiðslu.

„Enda er öllum ljóst, eftir atburði síðustu daga, að nauðsynlegt er að tryggja orkuöryggi Íslands,“ að því er segir í bókuninni.

Þá sé innflutningur á eldsneyti, í formi olíu og bensín, „feikilega mikil“ og ljóst að nú sé „enn brýnna en áður“ að flýta orkuskiptum á Íslandi eins og kostur er.

„Það er skoðun Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, að borginni beri að bregðast við og flýta orkuskiptum eins og unnt er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina