Ráðist á mann við rússneska sendiráðið

Fyrr í dag frá friðsamlegum mótmælum sem haldin voru við …
Fyrr í dag frá friðsamlegum mótmælum sem haldin voru við rússneska sendiráðið og sendiherrabústaðinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ráðist var á karlmann fyrir utan rússneska sendiráðið í morgun og hyggst hann kæra árásina. 

Kristófer Jónatansson, maðurinn sem ráðist var á, kveðst í samtali við mbl.is hafa verið á leið heim úr miðbænum þegar hann staldraði við rússneska sendiráðið við Garðastræti til að taka ljósmynd af skemmdarverki sem þar hafði verið framið. Svo virðist sem að málningu hafi verið slett á vegg. 

Taldi Kristófer hafa slett málningunni

Þegar hann var að munda myndavélina veittist að honum óprúttinn aðili sem sakaði Kristófer um að hafa unnið skemmdarverkið. Kristófer neitaði sök en það dugði ekki til og réðst maðurinn á hann og lamdi, að sögn Kristófers.

Þegar hjálp barst frá starfsmönnum sendiráðsins tók árásarmaðurinn á rás upp Garðastræti og þegar lögregla kom á vettvang var hann á bak og burt.

Kristófer er nú á leið í læknisskoðun.

Ekki náðist í lögregluna á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert