Ísland á lista óvinveittra þjóða

Ríkisstjórn Vladímírs Pútín, forseta Rússlands, hefur ákveðið að setja Ísland …
Ríkisstjórn Vladímírs Pútín, forseta Rússlands, hefur ákveðið að setja Ísland ásamt öðrum ríkjum á lista yfir óvinveitt ríki. AFP

Rússnesk yfirvöld hafa í dag sett Ísland, ásamt 47 öðrum ríkjum, á lista yfir „erlend ríki og landsvæði sem fremja óvinveittar aðgerðir gegn Rússlandi, fyrirtækjum þess og borgurum“. Felur aðgerðin í sér að heimilt verði að greiða aðilum í þessum ríkjum með rúblum í stað erlends gjaldeyris.

Ákvæðin ná til allra ríkisborgara og lögaðila í þeim ríkjum sem hafa tekið þátt í þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu, að því er fram kemur í umfjöllun rússnesku fréttastofunnar TASS.

Þar segir að tilskipun þarlendra stjórnvalda veiti rússneskum ríkisborgurum og fyrirtækjum, auk ríkinu sjálfu og sveitarfélögum, sem eiga skuldbindingar gagnvart erlendum kröfuhöfum í ríkjum á listanum heimild til að greiða í rúblum. Nær þetta til greiðslna yfir 10 milljónir rúblur á mánuði.

Rússneska rúblan hefur fallið nokkuð að undanförnu og kann aðgerðin að vera til þess fallin að verja hana gegn frekari falli auk þess að verja gjaldeyrisvaraforða Rússlands.

Á listanum eru Albanía, Andorra, Ástralía, Bandaríkin, Evrópusambandið (27 aðildarríki), Ísland, Japan, Kanada, Liechtenstein, Míkrónesía, Mónakó, Noregur, Norður Makedónía, Nýja Sjáland, San Marínó, Singapúr, Suður-Kórea, Svartfjallaland, Sviss, Taívan og Úkraína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert